Er nýorðin ófrísk – hvenær fer ég til læknis?

Spurning:

Halló Dagný.

Ég var að komast að því að ég væri ófrísk. Ég gerði þungunarprófiið sjálf. Hvað á ég að gera næst?
Á ég að fara strax til læknis eða bíða með það?

Bestu kveðjur,
Bumbulína.

Svar:

Sæl og til hamingju með þetta.

Þú ræður sjálf hvort þú ferð á stofu hjá lækni áður en þú ferð í fyrstu mæðraskoðun, það fer eftir því hvort einhver áhætta er í sögunni hjá þér hvort þörf er á því. Ef þú ert 35 ára eða eldri stendur þér til boða ómskoðun við 12 vikna meðgöngu þar sem athugaðar eru líkur á litningagöllum og í kjölfarið legvatnsástunga. Þannig skoðun myndir þú panta hjá sónardeildinni. Athugaðu líka hvað er í boði t.d. hvað varðar meðgönguvernd og fæðingarþjónustu. Pantaðu svo tíma hjá þeim aðila sem þér líst best á við u.þ.b. 12 vikna meðgöngu. Gerðu það tímanlega þar sem biðtíminn eftir að komast í skoðun getur verið allt að 4 vikur.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir