Spurning:
Sæl Dagný.
Ég er í vandræðum með hvað ég eigi að gera. Málið er að ég var að komast að því að ég er þunguð og er komin tæpar 7 vikur á leið. Ég hringdi niður í Mæðravernd og var að forvitnast með hvað ég ætti að gera næst. Mér var bent á að panta fyrst tíma hjá kvensjúkdómalækni mínum og fá staðfestingu og panta síðan tíma hjá þeim eða hjá konunum í MFS. -Nema það að ég hef ekki hugmynd um hvað ég eigi að gera varðandi með það þ.e hver eigi að fylgjast með mér alla meðgönguna. Ég er strax farin að kvíða fæðingunni þannig að ég vil ekki taka ranga ákvörðun í þessu.
Gætirðu nokkuð ráðlagt mér hvað ég ætti að gera?
Svar:
Sæl.
Það er ágætt að láta kvensjúkdómalækni líta á sig í byrjun meðgöngu, svona til að ganga úr skugga um að heilsufarið sé gott og taka ræktanir og krabbameinssýni. Síðan er það konunnar að ákveða hverjum hún vill vera hjá í mæðravernd.
Mæðravernd er ókeypis á Íslandi og í Reykjavík (og nágrenni) getur konan valið um að vera í MFS, þar sem hópur ljósmæðra annast konuna í gegn um meðgönguna, í fæðingunni og sængurlegunni í samvinnu við fæðingalækni, á heilsugæslustöð í sínu hverfi, þar sem ljósmóðir annast hana í samvinnu við hennar heimilislækni, eða á Miðstöð mæðraverndar, þar sem ljósmóðir annast hana í samvinnu við fæðingalækni. Í flestum tilvikum hefur konan „sína” ljósmóður og „sinn” lækni alla meðgönguna, þó svo aðrar ljósmæður hjálpi henni í fæðingunni.
Ljósmóðirin sinnir eftirliti með konunni og kallar til lækni ef eitthvað bregður útaf eða ef konan vill hitta lækninn. Ljósmóðirin hjálpar þér líka að takast á við kvíðann vegna fæðingarinnar, fræðir þig og styður. Kvíði er nefnilega versti óvinur góðrar fæðingar því hann getur hindrað konuna í að slaka nægilega á til að fæðingin gangi eðlilega. Hafðu í huga að meirihluti allra fæðinga fer vel og að til eru ráð sem grípa má til svo upplifunin verði sem best. Skoðaðu hnappinn um meðgöngu og fæðingu á Doktor.is og gáðu hvort þú færð ekki einhver fleiri svör þar.
Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir