Er ófrísk og nýhætt að reykja

Spurning:

Sæl.

Mig langar til að forvitnast svolítið. Málið er að ég er kominn 29 vikur á leið og var að hætta að reykja fyrir viku. Ég hef núna reykt pakka á dag s.l. 3 ár, en þar áður var ég búin að vera hætt í 4 ár. Ég hef verið að heyra að það hafi ekki verið mjög gott hjá mér að hætta svona allt í einu, þar sem það getur haft slæm áhrif fyrir barnið sem annars væri orðið háð níkótíni líka. Er þetta rétt? Ég hef undanfarna daga fundið fyrir minni hreyfingum, er stanslaust með brjóstsviða (sem ég fékk ekki áður) og stundum líður mér eins og sé að fara líða yfir mig. Gætirðu gefið mér upplýsingar fljótlega? Gætirðu einnig gefið mér uppl. um „fráhvarfseinkenni" sem ég kynni að finna fyrir?

Takk kærlega.

Svar:

Kæra verðandi móðir!

Ég vil byrja á að óska þér til hamingju með að vera hætt að reykja. Eins og þú veist þá ertu að gera ykkur báðum, þ.e. þér og barninu stóran greiða. Samkvæmt mínum heimildum þá er ekkert sem bendir til þess að það sé hættulegt fyrir barnið að þú hættir allt í einu að reykja. Auðvitað gæti barnið fengið einhver fráhvarfseinkenni, en þau eru sennilega liðin hjá. Líklegasta ástæðan fyrir því að barnið hreyfi sig minna er að því líður bara betur. En ef þú ert enn mjög kvíðin varðandi minnkandi hreyfingar barnsins þíns, þá skaltu hafa samband við heilsugæslustöðina þína og fá skoðun hjá ljósmóður.

Í sambandi við brjóstsviðann þá er það mjög algengt að konur á seinni hluta meðgöngu fái brjóstsviða, oft er þetta tengt mat. Eins gætir þú verið eitthvað spenntari en áður og þess vegna fengið brjóstsviða. Ég ráðlegg þér að skoða vel mataræði þitt að undanförnu, forðast súra drykki, fituríkan mat og sælgæti. Gott er að drekka sódavatn til að slá á einkennin.

Yfirlið og svimi er mjög algeng fráhvarfseinkenni. Líkaminn er að aðlagast breyttu ástandi án níkótíns. Jafnvægi blóðsykurs og blóðþrýstings fer stundum úr skorðum um tíma. Orsakir svima og yfirliðstilfinningar er oft lágur blóðþrýstingur og/eða lágur blóðsykur. Ég ráðlegg þér að drekka vel af vatni og passa þig að borða reglulega. Betra oft en minna í einu.

Varðandi frekari fráhvarfseinkenni þá finnst mér trúlegt að þú sért búin að fá þau fráhvarfseinkenni sem þú kemur til með að fá í bili. Þetta tekur oftast u.þ.b.tvær til þrjár vikur að ganga yfir að mestu. En auðvitað er vaninn það sem er oftast erfitt við að eiga. Að hætta að reykja er lífsstílsbreyting. En það að eignast barn er líka mikil lífsstílsbreyting og þá er gott að hugsa sér nýtt líf með barninu án reykinga. Ef fráhvarfseinkennin verða mjög slæm og þér líður mjög illa, þá er betra að nota níkótínlyf heldur en að byrja að reykja aftur, þó níkotínlyf séu ekki æskileg fyrir þungaðar konur.

Ég vil líka benda þér á að persónulegur stuðningur skiptir töluverðu máli. Þér er velkomið að hringja til okkar í síma ráðgjöfina 800-6030 og fá frekari ráðgjöf og stuðning. Við bjóðum líka upp á endurhringingarkerfi, þar sem við gætum hringt í þig í nokkur skipti til að veita stuðning og ráðgjöf.

Mundu svo að hrósa sjálfri þér á hverjum degi fyrir hvað þú ert dugleg!
Gangi þér vel og ég óska þér enn og aftur til hamingju.

Kveðja,
Guðrún Árný Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi í reykbindindi.