Er óhætt að halda áfram að reyna?

Spurning:
Heil og sæl.
Ég er 41 árs kona sem á þrjú börn. Ég hef verið að reyna að eignast barn með núverandi eiginmanni mínum (sem á tvö börn) í u.þ.b. 18 mánuði. Á þessu tímabili hef ég sex sinnum orðið ólétt og alltaf misst fóstur, mislangt gengin með. Ég fór í útsköfun í fyrradag því að við skoðun daginn áður kom í ljós að fóstrið var ekki með lífsmarki. Ég var gengin með 8-9 vikur. Það er búið að rannsaka allt sem hægt er varðandi fósturlátin s.s. litningarannsókn, ofnæmisviðbrögð o.fl. en engin sjáanleg ástæða finnst fyrir fósturlátunum. Þetta hefur verið gríðarlegt álag og erfiður tími en ég er einhvern veginn ekki alveg tilbúin til þess að gefast upp. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hvort það sé beinlínis hættulegt að halda áfram að reyna (fyrir móðurlífið) eða hvort það sé hreinlega ofur bjartsýni að halda að meðganga geti gengið eðlilega fyrir sig? Ég vil taka fram að ég er almennt mjög hraust, í kjörþyngd og reyki hvorki né drekk áfengi. Kveðja,

Svar:
Sért þú tilbúin til að halda áfram að reyna er í sjálfu sér ekkert sem mælir á móti því en það verður að hafa í huga að ef líður mjög stuttur tími frá fósturláti fram að næstu þungun eru meiri líkur á fósturláti en ella. Þú segir lækninn þinn búinn að rannsaka allt sem mögulegt er að skoða en stundum er eitthvað í samspili sæðisins og umhverfisins í leghálsinum og leginu sem ekki á saman og til þess að skoða það þarf mjög sérhæfðar rannsóknir. Til að kryfja svona mál til grunna teldi ég óvitlaust fyrir ykkur að leita til lækna tæknifrjóvgunardeildar en þar sem þú ert að verða í eldri kantinum fyrir þjónustu þeirra væri ráðlegast að gera það sem fyrst.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir