Er pasta og pizzur fitandi?

Spurning:

Ég er ein af þessari kynslóð sem er lítið fyrir að elda fisk, kjöt og eitthvað "venjulegt". Karlinn minn er sjómaður svo að ég nenni ekki að elda ofan í mig eina. Frekar vil ég borða pasta, brauð, súpur, pizzur, pylsur, hrísgrjón og hafa helst mikið af pönnusteiktu grænmeti með. Er þetta allt fitandi? Ég borða mikið af pasta og hrísgrjónum og hélt að það væri mjög hollt en mér var sagt að það væri fitandi því ég borðaði of mikið af því, er það rétt? Hvað á ég eiginlega þá að borða. Ég vil helst vera fljót að elda.
Með fyrirfram þökk.

Svar:

Það er ágætt að minna á það í upphafi að allur matur getur verið fitandi ef hans er neytt í of miklu magni. Það er þó þannig að eitt gramm af fitu gefur meiri orku en eitt gramm af kolvetnum (hrísgrjón, pasta, brauð og annar kornmatur er kolvetnarík fæða), þannig að við getum borðað stærri skammta af kolvetnaríkum mat heldur en af fituríkum mat og verið að fá sama magn hitaeininga. Pasta getur því ekki talist mjög fitandi matur nema á það sé sett osta- eða rjómasósa, þá rýkur hitaeiningafjöldinn upp. Haltu áfram að nota mikið af pönnusteiktu grænmeti með pastanu (passaðu bara að nota lítið af olíu við steikingu). Grænmeti er mjög hollt og hitaeiningasnautt.
Pylsur eru frekar fituríkur matur sem ég myndi ráðleggja þér að hafa ekki í matinn mjög oft – sérstaklega ekki ef þú notar steiktan lauk og remólaði með! Tilbúnar pizzur eru líka oft fituríkar, sérstaklega ef á þeim er feitt kjötálegg og mikill ostur. Svona mat á þess vegna ekki að borða daglega, heldur til tilbreytingar. Ef þú ert löt við að elda fisk og kjöt, þá er mikilvægt fyrir þig að borða vel af mögrum próteinríkum mjólkurafurðum daglega, t.d. skyr (ekki með rjóma!), eða nota baunir í grænmetisréttina, annars er hætta á að fæðið verði of próteinsnautt. Svo í lokin vil ég benda þér á að þú ert fljótari að sjóða fisk heldur en að elda pasta. Þar sem maðurinn þinn er sjómaður ætti að vera auðvelt fyrir þig að nálgast fisk. Skella einum fiskbita í sjóðandi vatn eða í eldfast mót og inn í ofn – tekur enga stund. Fá sér svo mikið af grænmeti með og úr verður mjög góður og næringarríkur matur sem er tilbúinn á stuttum tíma.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur