Er Remeron við kvíða eða þunglyndi?

Spurning:
Mig langar að vita hvort Remeron lyfið sé gefið við kvíða eða er það frekar gefið við þunglyndi? Hvað má taka það inn lengi? Ég tek 30 mg á dag en finnst ég ekki fá fullan bata af því. Má taka Sobril og Díazepam samhliða, það er annað á daginn og hitt á kvöldin?

Með kveðju.

Svar:
Samkvæmt opinberum handbókum er Remeron (mirtazapín) eingöngu ætlað við þunglyndi.
Hæfilegir dagsskammtar eru 15-45 mg.
Æskilegt er að halda meðferðinni áfram þar til sjúklingurinn hefur verið alveg einkennalaus í 4-6 mánuði. Þá skal hætta meðferðinni smám saman. Lyfið má því nota lengi ef ástæða er til.
Meðferð með hæfilegum skammti ætti að gefa jákvæða svörun innan 2-4 vikna. Þegar áhrif eru óviðunandi má stækka skammt upp að hámarksskammti. Komi engin áhrif fram á næstu 2-4 vikum skal hætta meðferð.
Ekkert er óeðlilegt að það taki nokkurn tíma að ná fram fullum bata og margir sjúklingar ná ekki fullum bata af þessu lyfi frekar en öðrum þunglyndislyfjum þó þau bæti líðanina og dragi úr einkennum sjúkdómsins.
Mirtazapín getur aukið slævandi áhrif benzódíazepína. Gæta skal varúðar þegar þessum lyfjum er ávísað samtímis. Sobril (oxazepam) og díazepam eru bæði úr þessum lyfjaflokki. Notkun þessara lyfja saman er því ekki útilokuð en nauðsynlegt er að gæta ítrustu varúðar.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur