Spurning:
Mig langaði til að kanna hvort þið getið veitt mér upplýsingar um lyf eða efni sem ég á hérna heima og kallast Ripped Fuel. Á umbúðunum stendur að maður eigi að hafa samband við lækni ef viðkomandi er með vissa sjúkdóma eða er á öðrum lyfjum en vill taka inn Ripped Fuel. Hið sama gildir fyrir þungaðar konur, þeim er einnig bent á að hafa samband við lækni. Mér leikur forvitni á að vita hvort það sé hættulegt fyrir mig að taka þetta lyf inn þar sem ég er á astmalyfjum (innsogslyf), sterum og berkjuvíkkandi lyfjum?
Svar:
Varðandi fyrirspurn ykkar um Ripped Fuel, þá er hér um lyf að ræða sem ekki er á skrá hérlendis. Það þýðir að efni þetta er flutt inn ólöglega (smyglað!). Ekki er vitað nákvæmlega hvað þessi vökvi inniheldur en samkvæmt upplýsingum frá Lyfjaeftirliti ríkisins er talið mjög líklegt að eitt af innihaldsefnunum sé efedrín. Hér er um að ræða efni með margvíslega verkun m.a. á hjarta- og æðakerfið. Ripped Fuel hefur m.a. verið misnotað af íþróttafólki og er á algjörum bannlista hjá keppnisfólki. Efnið getur verið mjög hættulegt sérstaklega samfara áreynslu og eru dauðsföll þekkt af völdum þess.
Því á alls ekki að nota þetta efni.
Með kveðju Doktor.is