Er slæmt að stunda kynlíf í lok meðgöngu?

Spurning:

Sæl.

Ég er ófrísk af þriðja barni, komin rúmar 37 vikur á leið og þegar við hjónin höfðum samfarir síðast þá var eins og kæmi smá legvatn. Eftir það fékk ég verki sem minntu á byrjun hríðar. Þetta leið svo hjá eftir ca. 2 – 3 tíma. Er slæmt að stunda kynlíf svona í lokin? Geta samfarir komið fæðingu af stað?

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Það er nú líklegast að vökvinn sem kom hafi verið annaðhvort leghálsslím eða þvag, ef það kom bara smágusa sem hætti svo. Varðandi verkina þá getur fæðing stundum farið af stað við samfarir, en til þess að það gerist þarf líkaminn að vera tilbúinn í fæðingu – þ.e. breytingar orðnar á leghálsi sem gera hann hagstæðan fyrir fæðingu. Við fullnægingu, sem og við ertingu leghálsins, verður samdráttur í leginu sem getur orsakað hríðarverki ef legið er að verða tilbúið fyrir fæðingu. Einnig er efni í sæðisvökva, prostaglandín, sem getur valdið mýkingu á leghálsinum svo hann fari að opnast.

Samfarir ættu að vera í lagi þegar konan er að komast á tíma og ættu hvorki að vera þér né barninu skaðlegar svo framarlega að legvatnið sé ekki farið að renna. Sé svo er aukin hætta á sýkingum ef hafðar eru samfarir. Ef þú ert eitthvað óörugg með það ættirðu að tala við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni, hún getur gengið úr skugga um hvort legvatnið er að renna eða ekki.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir