Er sykur vanabindandi?

Spurning:

Sæll Ólafur

Er sykur vanabindandi ? Ef svo er, hversu langan tíma tekur það fyrir manneskju að verða háð sykri og hvernig er hægt að losna undan því?

Kærar þakkir.

Svar:

Sæll.

Nei, sykur er ekki ávanabindandi. Skilgreining á ávana- og fíkniefnum er sú að um sé að ræða örvandi eða deyfandi efni sem geta valdið ávana og fíkn og fráhvarfseinkennum ef dregið er úr neyslu þeirra eða henni er hætt. Sykur er einfaldlega orkugjafi sem nýtist líkama okkar sem slíkur. Aftur á móti er það staðreynd að margir neyta allt of mikils viðbætts sykurs ekki síst í formi gosdrykkja og sælgætis og þeir sömu mættu gjarnan draga úr neyslunni. Ég vil hvetja þig til að lesa svar mitt við spurningu sem hefur fyrirsögnina: „Er sykurneysla að aukast?"

Með kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur