Er sykurneysla að aukast?

Spurning:

Sæll.

Spurning til þín í þremur liðum.

1. Mér finnst svo margir tala um að sykur sé svo óhollur. Hvert er þitt álit á því?
2. Getur verið að neysla sykurs leiði til „ofvirkni” hjá börnum. Mér finnst t.a.m. börn verða miklu fyrirferðarmeiri í afmælisveislum eftir að þau hafa neytt sætinda.
3. Er það rétt sem ég hef heyrt að sykurneysla aukist hér á landi ár frá ári?

Svar:

Sæl.

1. Umræðan um óhollustu viðbætts sykurs er sívinsælt umræðuefni og stundum mætti ætla að sykurneysla væri undirrót allra hugsanlegra næringartengda heilsukvilla. Þess ber að geta að þegar við tölum um viðbættan sykur er í flestum tilvikum átt við tvísykrutegundina súkrósa sem samanstendur af einsykrutegundunum þrúgusykri og ávaxtasykri. Tvísykrutegundina súkrósa er að finna í mörgum hollustuafurðum eins og ávöxtum. Þrátt fyrir að sá súkrósi sem finnst í ávöxtum sé efnafræðilega séð ekki frábruginn þeim súkrósa sem finnst í sælgæti eins og súkkulaði og margs konar sætabrauði getur mikil neysla verið varhugaverð og haft skaðleg áhrif í för með sér. En það er óhrekjanleg staðreynd að neysla margra á sykri, ekki síst meðal barna og unglinga, er of mikil. Og ofneysla, í hvaða mynd sem er, getur komið illa niður á heilsu viðkomandi. Mikil neysla á sykri getur þannig leitt til næringarefnaskorts vegna þess að með sykrinum koma engin næringarefni en eins og með aðrar kolvetnategundir þarf sykurinn á bæði vítamínum og steinefnum að halda fyrir eigin efnaskipti. Ef við aftur á móti neytum fæðu sem inniheldur sykur í „hófi” – fáum okkur eina litla kökusneið í stað tveggja stórra, barnaís í stað stórs íss með súkkulaðihjúp og nóakroppskúlum, er ástæðulaust að fyllast sektarkennd heldur þvert á móti að njóta.

2. Í sambandi við hvort sykurneysla leiði til ofvirkni hjá börnum þá svara ég þeirri spurningu með afdráttarlausu NEI-i. Í áratugi hafa sumir reynt að spyrða sykurneyslu við ofvirkni og jafnvel afbrotahneigð. Slíkar ásakanir byggjast á reynslusögum og hafa aldrei verið studdar vísindalegum rökum. Við megum ekki gleyma því að heilbrigð börn eru gjarnan fyriferðamikil, ekki síst ef þau eru saman í hóp. Það hefur ekkert með sykurneysla að gera. Sem foreldri hef ég átt því láni að fagna að halda mörg barnafmæli. Og trúðu mér þegar ég fullyrði að það skiptir engu máli með tilliti til fjörsins hvort boðið hefur verið upp á sykursætt bakkelsi og gos eða sykurlaust gos og pitsur.

3. Samkvæmt nýlegri greinargerð Manneldisráðs Íslands (sjá greinargerð á manneldi.is) virðist svo vera sem sykurneysla hafi nánast haldist óbreytt hér á landi síðustu 40 ár. Án efa kemur það mörgum á óvart. Engu að síður er það staðreynd að sykurneysla margra er of mikil og þannig hafa margir áhyggjur að miklu gosdrykkjaþambi ekki síst meðal unga fólksins okkar.

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur