Spurning:
Góðan daginn.
Ég hef verið í all öflugu átaki til að léttast og gengið mjög vel. Ég hef misst rúm 40 kg. en nú er komið vandamál upp og það er að skinnið er allt slappt og það er nokkuð mikið um slit. Er til eitthvað krem eða áburður sem hjálpar húðinni að ná sér eftir svona átök.
Virðingarfyllst
Svar:
Húðslit er örvefur sem allir geta fengið – karl- jafnt sem kvenmenn. Af hverju það kemur? Þetta gerist vegna skyndilegrar þenslu húðarinnar og/eða hormónabreytinga t.d. er börn taka skyndilegan vaxtarkipp, kynþroskaaldur þegar unglingar fá tímabundna fitusöfnun og -dreifingu, hjá konum á meðgöngu og offitu þegar mikil þyngdaraukning verður á skömmum tíma. Staðsetnig slitanna er aðallega á mjóbaki, upphandleggjum, rassi, mjöðmum, lærum, kvið og brjóstum. Slitin eru bleik/rauð og geta verið mjög áberandi og fólk líður fyrir þetta útlit sitt. Þessi litur dofnar á næstu 1-2 árum og verður þá minna áberandi, nema í návígi. Venjulega er ekkert gert við slíkum húðslitum. Það er þó hægt að flýta fyrir því að rauðleitur liturinn dofni/hvítni með ljós-geisla meðferð. Einnig er hægt að gera aðgerð á slitunum. Er það einkum gert hjá konum sem hafa slitnað mjög illa á meðgöngu og húð á kvið er mjög teygð/lafandi á eftir og nær ekki sinni fyrri lögun þrátt fyrir líkamsrækt. Erfitt er að koma í veg fyrir að þetta gerist. Þó má reyna að fyrirbyggja það með því – kvölds og morgna – að bera á húðina gott krem/olíu og nudda því vel inn í húðina. Mörgum hefur reynst vel að nota krem sem inniheldur Aloe Vera sem er mjög græðandi.
Vil ég benda á heimasíðu Laserlækningar, þar sem nálgast má frekari upplýsingar um meðferðina auk þess sem þar er að finna myndir fyrir og eftir meðferð.
Kveðja,
Hrönn Guðmundsdóttir, hjúkrunarforstjóri Laserlækningu