Er undanrenna eitthvað verri en nýmjólk fyrir ungbörn?

Spurning:

Spurningin er þessi: Er undanrenna eitthvað verri fyrir ungbörn en nýmjólk?

Nú hefur undanrenna eingöngu minni fitu en meira af nánast öllum öðrum næringarefnum. Ástæðan fyrir spurningunni er 6 mánaða sonur minn sem er töluvert þungur, þegar hann var 5 mánaða var hann 10.5 kg og 67cm.

Svar:

Sæl.

Undanrenna er ekki æskilegur drykkur fyrir börn. Ástæða þess er sú að börn þurfa fitu í fæðunni til að geta melt almennilega og hlutfall próteins í undanrennu er hærra en í heilmjólk sem leggur töluvert álag á nýrun. Mörg börn fitna vel fyrstu mánuðina, sérstaklega ef þau eru á brjósti, en sú fita er laus í sér og rennur af þeim um leið og þau fara að hreyfa sig um og borða annars konar fæðu með mjólkinni. Mælt er með því að börn nærist á þurrmjólkurblöndu með annarri fæðu fram að þeim tíma sem þau eru farin að borða vel úr öllum fæðuflokkum um 10 til 12 mánaða aldur. Það er afleit hugmynd að setja svona lítið barn í megrun þar sem sýnt hefur verið fram á að vel nærð börn eru ólíklegri að fá hjarta og æðasjúkdóma sem fullorðin heldur en þau sem eru mögur í æsku. Bíddu bara og sjáðu hvort stráksi grennist ekki af sjálfu sér þegar hann fer að skríða.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir