Spurning:
Sæll Ólafur.
Ég á dreng sem er 7 mánaða. Hann hefur ekki tekið snuð en nagar á sér fingurna. Um daginn heyrði ég þá kenningu að börnum, sem naga á sér fingurna, væri hættara við að fá skakkari tennur en þeim sem nota snuð. Ástæðan var sögð vera sú að fingurnir eru harðari og þ.a.l. skemma þeir góminn meira heldur en snuð. Er þetta satt?
Kveðja.
Svar:
Sæl.
Ungbörnum er eðlilegt að „smakka“ á umhverfi sínu. Allt reyna þau að setja í munninn og byrja þá gjarna á eigin fingrum. Ekki kannast ég við neina könnun sem bendir til þess að börnum sem sjúgi fingur sé hættara við tannskekkju en þeim sem nota snuð.
Sog er börnum lífsnauðsynlegt og mikilvægt sálarþroska þeirra. Á síðasta fjórðungi fyrsta árs, þegar þau eru farin að taka til sín meira af fastri fæðu, hverfur líkamlega þörfin fyrir sogið en sálarlega þörfin varir nokkuð lengur – þau stinga þá gjarna fingri upp í sig og sjúga þegar þau eru þreytt og vansæl. Sum börn virðast hafa þörf fyrir sog allmiklu lengur og stunda það fram yfir þriggja ára aldur. Þeirra tennur eiga það til að skekkjast og framburður vissra hljóða kann að verða þeim erfiður. Að jafnaði lagast þó sjálfkrafa sú tannskekkja sem verður til við sog ef barnið hættir soginu áður en fullorðinsframtennurnar koma fram.
Margir nútímaforeldrar hafa mikla þörf fyrir snuð en börn almennt litla. Er nokkur ástæða til þess að venja drenginn þinn á snuð?
Gangi þér vel við uppeldið og gættu þess að fá tannlækninn þinn til þess að líta á tennur drengsins ekki seinna en þegar hann fyllir fyrsta árið.
Ólafur Höskuldsson, sérfræðingur í barnatannlækningum