Erfið fæðing – keisaraskurður?

Spurning:
Mig langar að spyrja í sambandi við fæðingu! Ég á eitt barn og fæðingin hjá mér gekk svo HRIKALEGA illa! Ég var með verki í 3 sólahringa og verkirnir voru mjög harðir með 5-8 mín. millibili í 3 sólahringa. Og það sem ég vildi vita er að ef fyrri fæðing gengur svona illa er þá rætt eitthvað um keisaraskurð við næstu fæðingu?
Fyrirfram þakkir

Svar:
Fæðing getur verið með ýmsu móti og kona upplifað hana slæma þótt út frá læknisfræðilegum forsendum teljist hún eðlileg. Þar sem keisaraskurður er áhættusöm aðgerð, bæði fyrir móðurina og barnið, er venjulega ekki gripið til hans nema heilsu móður eða barns sé stefnt í hættu með fæðingu um leggöng. Ef þú fæddir ,,eðlilega" síðast er hæpið að þér verði boðið upp á keisaraskurð við næstu fæðingu nema ríkar ástæður liggi til grundvallar. Ræddu þetta við ljósmóðurina þína þegar þú leggur upp í næstu fæðingu – oft getur góður stuðningur á meðgöngu hjálpað til við að gera næstu fæðingu betri.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir