Erfiðleikar við að fá fullnægingu?

Spurning:
Góðan dag, málið er þetta, ég er 26 ára og á erfitt með að fá fullnægingu, ég fæ sáðlát en fullnæginginn virðist ekki koma fyrr en löngu seinna og oft þarf meiri örvun heldur en örvun við samfarir. Þá munn eða eitthvað slíkt. Ég virðist eiga auðveldara með t.d að fá fullnægingu ef bara koma til munngælur heldur en ef samfarir eru einnig. Þó ekki þannig að ég hafi ekki fengið fullnægingu við samfarir en það hefur gerst nokkrum sinnum, bara mun óalgengara heldur en hinsegin.
Ég hef leitið til þvagfæraskurðlæknis og fékk reyndar lyf fyrir nokkru síðan við bólgu í blöðruháls minnir mig, hélt lengi vel að það væri áhrifavaldur að þessu. Reyndar skal ég segja það strax að mér er oft mjög umhugað um hinn aðilann og að fullnægja henni, oft er ég að einbeita mér of mikið held ég að því. Nú er ég búinn að vera með sömu stelpunni í nokkurn tíma og virðist vera erfiðara að fá fullnægingar núna heldur en var fyrst. Veit ekki alveg afhverju það er. Svo núna um daginn sagði hún mér að sæðið í mér væri svo vont á bragðið að hún væri ekkert of hrifin af því að veita mér munngælur til að fullnægja mér því hún kviði alltaf svo fyrir ef ég myndi fá sáðlát upp í hana. Kynlífið okkar er að líða virkilega fyrir þetta því ég er að missa nánast allan áhuga á að stunda kynlíf því mér finnst þetta orðið snúast svo mikið um það að ég sinni henni og passa það að hún fái fullnægingu, sama hvort það sé með samförum eða munngælum. En mér finnst ég lítið sem ekkert vera að fá til baka. Hef rætt þetta heilmikið við hana og finnst eins og hún sé að missa áhuga á að sinna mér líka því þetta er að koma niður á sjálfsáliti hennar.
Svo heldur spurningin áfram: Málið er það líka að ég veit töluvert (á mínum mælikvarða) um hennar fyrrverandi kynlífssambönd, veit reyndar um alla sem hún hefur sofið hjá og einnig hefur hún sagt mér þó nokkuð af hlutum sem hún hefur gert með þeim aðilum, þetta hrjáir mig nokkuð. Þannig vill líka til að ég hef hitt nokkra af þeim og það gerir það ekkert betra. Þetta poppar einstaka sinnum upp í hausinn á mér og ég virðist stundum eiga erfitt með að stoppa það af. Við höfum rætt þetta og reyndi ég strax í upphafi að stoppa hana af með að segja mér frá svona hlutum því ég væri ekkert hrifinn af því að vita þetta og ég vildi ekki heyra um fyrrveranadi kynlíf hennar með öðrum að svona miklu leyti. En eins og áður sagði þá greinilega dugði það ekki til.
Man ekki eftir meiru svona í augnablikinu en þegar ég sé svar við þessu þá kanski rifjast eitthvað upp. Ég elska þessa stelpu alveg rosalega mikið og er svo hræddur um að þetta allt saman verði til þess að skemma eitthvað og ég vil ekki að það gerist. Þannig hvað get ég gert til að auka möguleika mína á fullnægingu við samfarir og er eitthvað sem ég get gert sem fær mig til að gleyma eða muna minna eftir þessum fyrverandi hjásvæfum hennar, helst bara að sætta mig við að ég hafi þessar upplýsingar og lýsingar.
Kveðja, Ráðvilltur

Svar:

Blessaður, þetta er ansi langur aðdragandi að spurningu þinni sem er tvíþætt: hvernig þú getur aukið möguleika þína á fullnægingu við samfarir og hvað þú getir gert til að gleyma fyrrverandi hjásvæfum kærustunnar. Snúum okkur að fyrstu spurningunni hjá þér: það er ekki til nein ein ákveðin tegund fullnægingar eða eins örvun sem hentar öllum. Fullnæging getur einfaldlega verið ákveðin tilfinning um mettun og losun, verið allt frá því að vera þægileg, ekkert sérstök eða upp í það að vera sterk og kröftug vellíðan. Hvernig fullnægingu færð þú? Það er enginn sem segir heldur að fullnæging eigi fyrst og fremst að koma fram með samfaraörvun einni saman.  Hvað viðhorf hefur þú? Eru þín viðhorf að hamla þér eða ertu nógu sterkur til að virða hvers konar örvun er heppilegust fyrir þig?  Í þínu tilviki virðist þú þurfa sterka örvun til að fá fullnægingu eins og t.d. með munngælum. Má það ekki bara vera þannig? Þá væru samfarirnar ákveðin upplifun en ekki sú sama og að fá fullnægingu með munngælum. Ég hef tekið eftir að sumir karlmenn virðast njóta einnar örvunar fram yfir aðra og þá er kúnstin að taka tillit til þess en reyna ekki að telja sér trú um annað. Sumir fá sínar bestu fullnægingar við sjálfsfróun, aðrir við munnmök o.s.frv. Samfaraörvun er annars konar örvun og ekki hægt að skynja hana á sama hátt fyrir þessa menn. Ef ég á að benda á eitthvað “trix” (sem ég forðast yfirleitt eins og heitan eldinn að gefa því mér finnst það gera kynmök vélræn),  þá er það það að fá þá örvun sem þú fílar best og síðan, rétt áður en þú “ert að fá það”-demba þér í sjálfar samfarirnar og athugað hvort þér takist þannig að “brúa” örvunina.Og ef þú hefur áhyggjur af velferð kærustunnar þá getið þið ákveðið í sameiningu hvort þið sinnið hennar þörfum fyrst eða á eftir. Hvað seinni spurninguna varðar þá er bara eitt mjög skýrt svar til við því: þegar þitt eigið sjálfstraus
t vex og dafnar þá minnkar tilhneigingin hjá þér að vera að hugsa til hennar fyrri kynlífsreynslu.

 

 

Kveðja,

Jóna Ingibjörg,