Erfitt með andardrátt – vegna kvíða?

Spurning:
Komið þið sæl á Doktor
Ég á gríðarlega erfitt með andardrátt og stundum er eins og ég sé að kafna, eða nái ekki andanum. Ég er búin að fara tvisvar til heimilislæknis og hann heldur að þetta sé vegna kvíða og áhyggja, þ.e. kvíðaköst. Ég veit að það er búið að vera gríðarlegt álag á mér í rúm tvö ár vegna fjárhagsáhyggja vegna þess að maðurinn minn missti vinnuna. Ég veit ekki hvort þetta er andlegt þó ég sé farin að hallast að því. En mér finnst þetta bara versna og versna og stundum er ég orðin svo þreytt í lungunum að ég er orðin helaum á því að reyna að anda djúpt. Ég er alltaf með kvíðahnút í maganum og líður oftast eins og ég sé nýbúin að fá mjög slæmar fréttir og sé að reyna að útiloka þær.
Ég vildi bara spyrja hvort það þýði eitthvað að leita eitthvað annað en til heimilislæknis, hann vildi reyndar setja mig á róandi töflur en ég afþakkaði það. Hvað er hægt að gera við svona miklum kvíða og áhyggjum sem eru farnar að hafa veruleg áhrif á daglegt líf? Ég er alltaf móð og á erfitt með að tala eðlilega við fólk vegna andþyngsla, ég er alltaf að andvarpa þungt. Vonandi fæ ég eitthvað svar frá ykkur, síðast þegar ég talaði við lækni var mér sagt að ég ætti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu þar sem ég hefði greinilega nægar áhyggjur fyrir.
Það svar hjálpaði mér ekki mikið.

Svar:
Sæl.
Eins og þú bendir réttilega á er ekki hægt að segja þér að hætta að hafa áhyggjur. Ef málið væri svona auðvelt þá væri lífið einfalt. Einkennin sem þú lýsir geta verið einkenni kvíða. Þó verður þú að láta athuga þig fyrst hjá sérfræðingi í ofnæmislækningum til að fyrirbyggja líkamlegar orsakir. Ef það kemur ekkert út úr því þá mæli ég með að þú pantir þér tíma hjá sálfræðingi sem hefur reynslu í meðferð kvíða.

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43
661-9068