Erfitt með að sofna

Spurning:
Ég á mjög erfitt með að sofna á kvöldin og stundum sleppi ég því hreinlega. Ég á líka rosalega erfitt með að vakna á morgnana og ef að ég læt ekki að láta vekjaraklukkuna vekja mig þá get ég léttilega sofið í 14 tíma. Hvað er að??? Stundum er ég líka dauðþreytt en get samt ekki sofið. Ég var alltaf svona en þá byrjaði ég að drekka fræga sveppateið og allt lagaðist en svo kom það í ljós að þetta te var víst svolítið hættulegt og allir hættu að drekka það, þar á meðal ég! Stuttu seinna var allt komið í sama horfið.

Svar:
Komdu sæl.
Eflaust áttu hér við mansjúríusveppavökvann en mikið sveppaáts-æði rann á Íslendinga á árinu 1995. Þjóðin fékk þau skilaboð hjá leikum sem ,,lærðum” að sveppateið væri allra meina bót. Með því að drekka teið áttu feitir einstaklingar að megrast og lækningarmáttur þess var lofaður.

 

Ég verð að viðurkenna að miðað við þær upplýsingar sem þú gefur get ég ekki gert mér fulla grein fyrir ástæðum svefnvandamála þinna. Ég vil ráðleggja þér að leita til fagaðila eins og sálfræðings sem ætti að geta hjálpað þér að leita að orsökum þess. Hvað varðar sveppateið þá tel ég harla ólíklegt að það hjálpi til við leysa svefnvandamál.

 

En þegar mansjúríusveppavökvinn var athugaður kom í ljós að hér var á ferðinni gersveppur af tegundinni saccharomyces sem er skyldur candida sveppnum. Landlæknisembættið varaði við neyslu hans þar sem að: ,,…í fagtímaritum hefur verið lýst alvarlegum sýkingum og nokkrum dauðsföllum þar sem Saccharomyces cerevisase var talin vera orsökin, oft reyndar með öðrum sveppum og bakteríum.”

 

 Reyndar var meginuppistaðan í sveppateinu vatn og sykur og ef það náði að gerjast gat það orðið nokkuð áfengt!

 

 

 

Með kveðju, Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur