Eru þessi lyf til á Íslandi?

Spurning:
Mig langar að fá upplýsingar um eftirfarandi lyf og hvort þau eru til á Íslandi: Letigen. Regenon. Dobesin.

Svar:
Ekkert þessara lyfja er fáanlegt hér á landi.

Letigen er megrunarlyf sem var á markaði í Danmörku og engum öðrum Evrópulöndum. Það innihélt m.a. örvarndi efnið efedrín og var tekið af markaði þar í nóvember 2002 vegna alvarlegra aukaverkana, þ.m.t. gruns um dauðsföll.

Regenon og Dobesin sem innihalda örvandi efnið amfepramon eru ekki heldur á markaði hér á landi. Þau voru tekin af markaði í Danmörku a.m.k. á árinu 2001 vegna banns frá Evrópuráðinu, þar sem áhættan við notkun þeirra var talin langtum meiri en gagnið. Ekkert þessara lyfja virðist vera á markaði á Norðurlöndum lengur. Engin örvandi megrunarlyf eru á markaði hér á landi og er langt síðan það síðasta var tekið af markaði.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur