Spurning:
Kæra Sólveig.
Mér leikur forvitni á að vita hvort að brún augu séu víkjandi eða ríkjandi miðað við blá augu. Til dæmis ef að annað foreldrið er með blá augu og hitt með brún, hverjar eru þá líkurnar á því að barnið fæðist með brún augu?
Kveðja.
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Augnlitur ræðst af því hversu mikið er af litarefninu melaníni í lithimnu augans. Þeir sem eru hvítingjar, þ.e. hafa ekkert litarefni í líkamanum og því ekkert litarefni í lithimnunni, hafa rauð augu, en allir aðrir hafa eitthvert litarefni í lithimnu augans. Þeir sem hafa minnst af litarefninu hafa blá augu en þeir sem hafa mest af litarefninu hafa brún augu. Litningasamsetning ræður því hversu mikið litarefni erfist. Hvernig augnlitur erfist er flókið og ekki að fullu skilið, en til einföldunar má segja að hver einstaklingur hafi tvö gen og barn erfi því annað frá móður og hitt frá föður. Ef annað foreldri er með blá (blbl) augu en hitt með brún (brbr eða blbr) eru því meiri líkur á að barnið hafi brún augu en blá. Þetta er hinsvegar einföldun á hvernig augnlitur erfist en vona að þetta svari fyrirspurn þinni.
Kveðja, Sólveig Magnúsdóttir, læknir.