Eru meiri líkur á fósturláti hafi það gerst áður?

Spurning:

Sæl.

Ég er hérna með eina spurningu í sambandi við fósturlát. Þannig er mál með vexti að fyrir nokkrum mánuðum síðan missti ég fóstur á 8. viku eða þar um bil, en það var algjörlega dulið og kom ekki í ljós fyrr en í mæðraskoðun á 15. viku. Þungunareinkennin höfðu ekkert minnkað og það blæddi ekki neitt eða komu neinir verkir. Nú er ég aftur orðin ófrísk og komin um 8 vikur á leið og allt virðist vera eðlilegt, eða bara eins eðlilegt og það var í fyrra skiptið. Nú langar mig að vita hvort líkurnar á að ég missi fóstur aftur á þennan dulda hátt eru eitthvað meiri en hjá öðrum konum, eða hvort ég geti verið svona þokkalega róleg fyrst að ekkert blæðir og allt virðist vera eðlilegt?

Þakkir.

Svar:

Sæl.

Það eru aðeins meiri líkur á að kona sem einu sinni hefur misst fóstur missi aftur fóstur. Dulið fósturlát er hins vegar frekar sjaldgæft. Reyndu að halda ró þinni en e.t.v. væri ekki úr vegi fyrir þig að stefna að mæðraskoðun aðeins fyrr en síðast, t.d. um 11-12 viku svo biðin eftir að vita hvort fóstrið sé lifandi verði ekki eins löng.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir