Spurning:
Sæll Jón Pétur.
Eru ekki til nein þunglyndislyf sem ekki eyðileggja kynlífið
(1. Ég hef ekki áhuga á kynlífi. 2. Ég blotna ekki. 3. Ég get ekki fengið fullnægingu. 4. Slímhúðin er sár og aum á eftir, með tilheyrandi sviða í marga daga.)?
Ath! Ég hætti á lyfjum í tvo mánuði: Engin vandamál (Kynlífið mjög skemmtilegt)!
Kveðja.
Svar:
Sæl.
Nú veit ég ekki hvaða lyf þú ert að taka eða hvort þú sért að taka fleiri en eitt lyf en mörg þessara nýju þunglyndislyfja geta haft áhrif á kynlífið. Þessi áhrif eru mismikil og stundum engin, fer það bæði eftir lyfjunum og persónunni sem er að taka lyfið. Það eru engir tveir eins… Því sem þú lýsir sem aukaverkun af þunglyndislyfi er vel þekkt fyrir sum lyf og því ekki annað að gera fyrir þig en að ráðfæra þig við lækninn þinn og segja honum að lyfið sem þú ert á henti þér ekki. Þá velur hann annað lyf handa þér með tilliti til þín og þinna aðstæðna. Mörg eldri lyf hafa ekki þessi áhrif á kynlífið sem aukaverkun en þau geta haft aðrar aukaverkanir.
Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur