Esbl

Hvernig er smithættan,aðili sem er með þetta hvernig smitar hann aðra með þessu,og hvernig getur sá sem er með þetta veikst af öðrum aðila

Góðan dag.

ESBL er ensím sem sumar bakteríur mynda og gerir þær ónæmar fyrir algengum sýklalyfjum, því getur verið erfitt að meðhöndla sýkingar af völdum ESBL-myndandi baktería og verða þessar bakteríur hluti af flóru þess sem hefur sýkst. Viðkomandi getur svo verið „beri“ án þess að vera með virka sýkingu og smitað aðra. Smithættan eykst hins vega til muna ef sá sem er smitaður er með virka sýkingu s.s. niðurgang eða þvagfærasýkingu af völdum ESBL-myndandi baktería eða hósta af völdum ESBL-myndandi baktería í öndunarfærum. Þessar bakteríur geta líka fundist í sárum.

ESBL-myndandi bakteríur smitast með beinni eða óbeinni snertingu. Sá sem er smitaður þarf að gæta hreinlætis og passa upp á handþvott, sérstaklega eftir salernisferðir. Á sjúkrastofnunum er ESBL smitaður einstaklingur hafður í sér herbergi og með sér salernisaðstöðu til að vernda þann viðkvæma hóp sem þar liggur inni.

Oddný,
hjúkrunarfræðingur