Eykur Amilín einbeitingu hjá 6 ára barni?

Spurning:

Hentar Amilín vel til að auka einbeitingu hjá 6 ára barni sem á við nokkurn einbeitingarskort að ræða?

Bætir það svefninn?

Verður barnið „undir áhrifum” með þessu lyfi?

Verður barnið þreyttara eða latara?

Ég spyr vegna þess að dóttir mín er nýbyrjuð að taka þetta lyf, aðallega til þess að lengja svefntíma og þar af leiðandi auka einbeitingu.

Kær kveðja.

Svar:

Amilín inniheldur virka efnið amitryptýlín en það tilheyrir flokki svokallaðra þríhringlaga geðdeyfðarlyfja. Nokkuð er um aukaverkanir sem koma í ljós jafnvel nokkru áður en verkanir lyfsins. Svo virðist sem þol geti myndast gegn þeim við langtíma notkun þannig að það getur verið gott að byrja að taka lága skammta af lyfinu og auka þá svo jafnt og þétt til að minnka líkur á aukaverkunum. Þegar hætta á að taka lyfið er einnig mælt með því að það sé gert með því að smáminnka skammtana. Það minnkar líkur á fráhvarfseinkennum.

Lyfið hefur róandi og kvíðastillandi verkun, það ætti því að bæta svefninn. Aukavekanir lyfsins eru m.a. svimi, svefnhöfgi, slappleiki og rugl. En hafa ber í huga að aukaverkanir leggjast mismikið á fólk, sumir fá miklar aukaverkanir en aðrir fá litlar sem engar. Það er því mögulegt að dóttir þín virki svolítið eins og hún sé „undir áhrifum”. Yfirleitt er þetta lyf ekki notað handa börnum nema við „enuresis nocturna” sem á íslensku má kalla undirmigu. Þó geta læknar haft ástæðu til að nota lyf eins og þetta með öðrum hætti en framleiðandinn mælir með.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur