Spurning:
Kæri viðtakandi.
Ég er fædd með hryggskekkju og er bakið á mér að gera útaf við mig. Ég er 33 ára og hef glímt við þetta í öll þessi ár og þetta fer sífellt versnandi. Ég er búinn að reyna sjúkraþjálfun, nokkrum sinnum og að gera mínar æfingar og það virkar stundum. Ég á 4 börn og þau yngstu eru 7 mán og 2 ára. Meðgöngurnar hafa gengið að óskum, samt með átökum annað slagið.
Ég hef reynt að setjast á skólabekk og gefst strax upp. Ég á mjög erfitt með að vinna sitjandi til dæmis við tölvu, mitt uppáhald er að vinna í höndunum, en þá er ég með stöðuga verki. Eins að vinna í borðhæð standandi, það skánar ekki. Ég er búin um leið, ég er farinn að lifa á verkjatöflum dögum saman. Ég sef ekki heilu næturnar vegna verkja, sérstaklega ef ég hef verið að vinna eitthvað sitjandi eða standandi.
Ég hef verið hjá bæklunarlækni, frá því þetta uppgötvaðist (ég var 14 ára) öðru hverju og hann sendir mig alltaf í sjúkraþjálfun og ég geri æfingar sem mér hafa verið kenndar. En það virkar stundum í nokkra daga og svo kemur slæmur tími. Ég þarf nauðsynlega að fara út á vinnumarkað, en ég treysti mér ekki í vinnu og lifa á verkjatöflum sem virka stundum og stundum ekki.
Ég hef einnig prófað að fara til hnykkjara en ekkert lagaðist við það. Fólk segir mér að ég eigi örugglega rétt á örorkubótum, vegna þess að ég get ekki unnið? Er það rétt? Á ég rétt á þeim? Heimilislæknirinn minn hefur ekki minnst á það, enda er ég ekki nógu dugleg að kvarta við hann, ég reyni að leysa þetta eftir bestu getu, sjálf.
En ég er búinn að vera virkilega slæm, síðustu vikurnar, ekki getið sofið, nema dúr og dúr. Og það gefur að skilja að það er ekki hægt með heimili og lítil börn. Hvað ráðleggur þú mér að gera. Mér er sagt að það sé ekkert hægt að gera í þessu nema æfingar.
Mér finnst ég versna með aldrinum. Hvert get ég snúið mér? Hef ég einhvern rétt? Þetta er eittvað sem ég mun alltaf glíma við. Með von um að einhver geti leiðbeint mér áfram í þessu máli sem er alveg að sliga mig.
Með fyrirfram þakklæti og bestu þakkir.
Svar:
Sæl.
Meðfædda hryggskekkju er ekki hægt að laga með æfingum. En þar sem hryggskekkja skapar mikið ójafnvægi bæði í liðum hyggsúlu og vöðvum, er nauðsynlegt að vera undir handleiðslu sjúkraþjálfara og gera æfingar reglulega. Að æfa í skorpum gerir bara gagn á meðan, en ekki til lengri tíma litið. Þar sem þú hefur verið með verki lengi, þá trufla þeir svefn þinn, það getur aukið enn frekar á verkina. Svefntruflanir geta orsakað og/eða aukið á ýmis einkenni. Þú ættir að ræða þetta við lækninn þinn.
Hvort þú eigir rétt á eða eigir að sækja um örorku, verður þú að ræða við heimilislækninn þinn. Það er yfirleitt farin sú leið að sækja um tímabundna örorku, sem kallast endurhæfingarlífeyrir. Meðan einstaklingur er á endurhæfingarlífeyri er ætlast til að hann sé í endurhæfingu með það að markmiði að ná upp sem bestri starfsorku. Allur kostnaður við endurhæfingu m.a. sjúkraþjálfun lækkar á meðan endurhæfingarörorkan er í gildi. Þetta gæti verið ágætur kostur fyrir þig.
Markviss endurhæfing og ekki síst kennsla og þjálfun í líkamsbeitingu ásamt nægum og nægilega nærandi svefni er líklega það sem kemur þér að mestu gagni.
Kveðja,
Sigrún Baldursdóttir, MT´c sjúkraþjálfari, Sjúkraþjálfun Styrkur