Spurning:
Telur þú að almenn þátttaka í útivist og líkamsrækt sé farin að skila sér í færri tilfellum hjartasjúkdóma?
Svar:
Til þess að svara þessu óyggjandi þyrfti að gera sérstaka rannsókn því það er erfitt að rannsaka lífshætti fólks, þeir breytast svo mikið. Ef 100 manna hópur gjörbreytti lífsháttum sínum til lengri tíma væri enginn vandi að mæla þetta og þá kæmi sennilega í ljós færri hjartasjúkdómar miðað við meðaltal. En það er þrautin þyngri að gera svona rannsókn. Varðandi offituvandamál hefur komið í ljós að það er tiltölulega auðvelt fyrir sjúkling að léttast um 15 kíló, en þrautin þyngri að halda þeim árangri til lengri tíma og oftast tekst það ekki. Ég get vitnað í könnun sem gerð var á þýskum hjartasjúklingum sem höfðu farið í kransæðaskurðaðgerðir. Hópurinn fór fyrst allur í markvissa endurhæfingu. Þegar að útskrift kom var helmingi fólksins boðið í fimm ára prógramm, þar sem æft var þrisvar í viku og fylgst vel með blóðfitu, blóðþrýstingi og lyfjameðferð öll höfð í hámarki. Þeir sem ekki gátu mætt á þessa æfingastaði fengu lánuð þrektæki heim og sjúkraþjálfar fylgdust með að æfingaáætluninni væri fylgt. Hinn hópurinn fór heim með venjulegar ráðleggingar. Málið var svo gert upp eftir fimm ár og viti menn, þeir sem voru í stífa prógramminu dóu síður, eða síðar, og höfðu mun betri mælanlega heilsu en hópurinn sem hafði farið heim með venjulegar ráðleggingar. Heilbrigður lífsstíll ásamt reglubundnum æfingum skilar örugglega árangri.
Þorkell Guðbrandsson, hjartalæknir