Fæðingarþunglyndi, hvað er til ráða?

Spurning:
Ég er komin 24 vikur á leið með mitt annað barn og er farin að finna fyrir þunglyndi, þó í sveiflum. Þetta virðist vera að einhverju leyti álagstengt því ég er miklu viðkvæmari þegar ég er þreytt, þá get ég tekið grátköstin. Ég fann fyrir þessu að einhverju leyti á fyrstu meðgöngunni líka en miklu minna. Spurningin er hvort það geti verið að maður finni fyrir fæðingarþunglyndi á meðgöngu og þá hvort það séu meiri líkur á að maður finni sterkar fyrir þessu eftir að barnið er fætt? Eru til einhver lyf sem hafa verið prófuð á óléttum konum og hafa örugglega ekki áhrif á fóstrið, eða þá einhverjar aðrar meðferðir? Ég er búin að ræða þetta bæði við ljósmóðir hjá mæðraeftirlitinu og heimilislækninn en mér finnst einhvern veginn þau ekki geta gert neitt nema setja mig á lyf, sem ég vil helst sleppa við en veit samt ekki hvað ég á að gera til að láta mér líða betur.

Svar:
Vissulega getur fæðingarþunglyndi komið fram þegar á meðgöngu og er hætt við að það magnist síðan eftir fæðingu, þótt það sé ekki algilt. Yfirleitt dugar lítið annað en að taka lyf við þunglyndi ef það er farið að há manni í daglegu lífi. Hægt er að velja lyf sem hafa lítil áhrif á fóstrið og oftast hægt að ráða þannig bót á vanlíðaninni, a.m.k. að mestu leyti. Ræddu þetta við lækninn þinn og ljósmóðurina og e.t.v. fá þau ráðgjöf eða senda þig til geðlæknis. Aðalatriðið er að þú látir fylgjast með þessu og fáir viðeigandi meðferð.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir