Spurning:
Ég hef lengi átt við svolítil vandamál að stríða í sambandi við kvilla á borð við félagsfælni, feimni, lélega sjálfsmynd o.s.frv. Fór ekki að líta á þetta sem einhvers konar vandamál fyrr en nokkuð nýlega, kannski fyrir 1-2 árum síðan og fór ekki að líta á þetta sem sjúkleg einkenni fyrr en tiltölulega nýlega. Ég hafði síðan alltaf trú á að geta sigrast á þessu sjálfur eða að þetta myndi „þroskast af mér“ en er farinn að fá miklar efasemdir um það. Nú er svo komið að þetta er farið að hafa sífellt meiri áhrif á líf mitt þar sem kröfur umhverfisins um félagslega hæfni aukast jafnt og þétt eftir því sem maður eldist og fullorðnast. Þessi vandamál eru farin að hafa áhrif trú mína á fyrirætlanir mínar og drauma. T.a.m. á ég alveg nóg af vinum en á í miklum erfiðleikum með að tengjast þeim vel (þori stundum varla að hringja í þá) og eignast ekki nána vini, eða „bestu vini“, og finn því oft fyrir einmanaleika. Stundum stend ég heillengi fyrir framan spegilinn og æfi það sem ég ætla að segja við vini mína en fæ það ekki til að hljóma rétt. Ég get ómögulega horft lengi í augun á fólki sem ég er að tala við og verð alltaf vandræðalegur og mismæli mig eða veit ekkert hvað ég á að segja. Það getur jafnvel verið óþægilegt að mæta einhverjum ókunnugum úti á götu. Einnig má nefna sem dæmi að þegar ég hugsa um að heimsækja sálfræðing sækja að mér hugsanir um að honum finnist vandamálin ómerkileg og að um tímasóun og „væl“ sé að ræða. Þá þarf varla að taka fram að stelpurnar eru eins og lokuð bók fyrir mér sem er mjög leiðinlegt eins og gefur að skilja. Ég geri mér mjög vel grein fyrir því að um að vandamálin eru eins og hver annar sjúkdómur og má lækna. Ég hef fullan vilja og jákvæðni til að sigrast á þessu en held að ég þurfi að fá aðstoð sérfræðings. Þess vegna hef ég ákveðið að leita til sálfræðings.
Ég geri mér grein fyrir að fyrirspurnir um svipuð/sams konar mál hafa borist hér inn og ég hef lesið svör við þeim. Það sem ég er hins vegar mest að velta fyrir mér núna er hvort meðferð hjá sálfræðingi sé ekki dýr. Ég er námsmaður og hef því ekki mikið af peningum á milli handanna og má ekki við nýjum og stórum útgjaldalið. Mig langaði því aðallega að fá einhverja grófa hugmynd um það hvers konar útgjöld gæti verið að ræða. Hvernig er dæmigerð meðferð skipulögð, hvað kosta tímarnir og hvernig má dreifa kostnaði. Einnig hvort betra sé að leita til eins sálfræðings en annars með vandamál af þessu tagi, þ.e. hvort einhverjir séu sérhæfðir í vandamálum á þessu sviði. Með góðri kveðju og góðri von um svar.
Svar:
Sæll.
Í fljótu bragði lýsir þú einkennum félagsfælni. Félagsfælni er kvíðaröskun sem einkennist af kvíða í félagslegum aðstæðum vegna ótta við að verða fyrir athlægi eða gera eitthvað vandræðalegt. Þetta leiðir til kvíða í félagslegum aðstæðum en einnig til þess að reynt er að forðast þessar aðstæður. Oftast dugar sálfræðimeðferð og þá sérstaklega hugræn atferlismeðferð en stundum verður að beita lyfjameðferð. Meðferðin er nokkuð skýr og þú ættir að geta fundið bækur og upplýsingar á netinu um hugræna atferlismeðferð. Mjög gott er að lesa sér til um meðferðina. Kostnaður er mjög breytilegur og fer eftir ýmsu t.d. hve vel þú vinnur í meðferð, hve lengi þú hefur verið með einkennin og hve mikið sálfræðingurinn tekur (það er misjafnt). Sumir sálfræðingar auglýsa í símaskrá að þeir vinni með hugræna atferlismeðferð en einnig getur þú fengið upplýsingar hjá Félagi um hugræna atferlismeðferð á http://www.medferd.com/HAM/tenglar.html …. Greiðslur verður þú að semja um við þann sálfræðing sem þú talar við.
Gangi þér vel
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur