Fibromyalgia, Neurasteni, Chronic Fatigue Syndrome, hver er munurinn?

Spurning:

Ég er búsett á norðurlöndum og er reyna að fá upplýsingar um það sem sumir kalla Fibromyalgia og aðrir Neurasteni. Hér virðast menn vera svolítið á eftir varðandi upplýsingar um þessa sjúkdóma.

Er þetta það sama, eða tveir ólíkir sjúkdómar?

Hvað með CFS, er það svo einn enn sjúkdómur?

MS hefur verið útilokað hjá mér, en ME, CFS, Neurasteni og Fibromyalgia er það sem er nefnt þegar læknar koma með einhverjar skýringar. Mig langar að skilja muninn á þessum einkennum.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Fibromyalgia er kölluð vefjagigt á íslensku og er fyrst og fremst sjúkdómur ungra kvenna. Kynjahlutfallið er 1 karl á móti 5 konum. Aðaleinkennin eru langvinnir verkir sem eru dreifðir um líkamann og finna má ákveðna auma bletti við líkamsskoðun. Höfuðverkur, morgunstirðleiki, óeðlileg þreyta og svefntruflanir eru algeng vandamál. Eins má nefna órólegan ristil, náladofa, bjúg á höndum, kvíða, depurð og einbeitingaskort. Greining sjúkdómsins byggist fyrst og fremst á lýsingu sjúklingsins og líkamsskoðun. Yfirleitt er skoðunin eðlileg fyrir utan aumu blettina sem tengjast vöðvafestum og eru dreifðir um ákveðna staði líkamans. Yfirleitt eru allar blóðrannsóknir, þ.á.m. sökk eðlilegar og sömu sögu má segja um allar aðrar rannsóknir.

Meðferðin byggir á að bæta svefninn og nauðsynlegt er fyrir sjúklinginn að stunda líkamsþjálfun til að rjúfa verkjavítahringinn og byggja upp styrk og úthald. Lyf önnur en geðdeyfðarlyf (sem bæta svefninn) virðast lítið gagn gera. Engar vefjaskemmdir eiga sér stað en einkennin geta verið langvinn og erfitt að meðhöndla þau. Orsakir vefjagigtar eru óþekktar. Getgátur eru um sýkingar sem ákveðnir einstaklingar svari á þennan hátt. Oft má rekja upphaf vefjagigtar til svefntruflanna, langvarandi andlegs álags eða streitu, s.s erfiðrar meðgöngu/fæðingar og slyss.

Neurasteni er gamalt orð yfir sjúkdómseinkenni sem geta fylgt vefjagigtinni og fleiri sjúkdómum. Þessi einkenni lýsa sér m.a. í þreytu, slappleika, depurð og erfiðleikum við að einbeita sér.

Chronic Fatigue Syndrome (CFS) kallast síþreyta eða síþreytufár á íslensku. ME (myalgic encephelomyelitis) er notað í Bretlandi yfir þennan sjúkdóm en viðurkennda nafnið er CFS. Sennilega er síþreyta og vefjagigt sami sjúkdómurinn enda er lýst sömu sjúkdómseinkennum í báðum tilvikum nema hvað þreytan er meira yfirgnæfandi hjá þeim sem greindir eru með síþreytu.

Kveðja,
Starfsfólk Gigtarlínunnar,
Gigtarfélags Íslands, gigt.is