Fíknsamband, hvað er til ráða?

Spurning:
Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja að lýsa vandamálinu mínu, ætli að ég verði ekki bara að byrja alveg á byrjuninni og segja alla söguna. Málið er það að ég kynntist frábærum strák. Hann var rosalega hlédrægur, drakk ekki, reykti ekki og var alltaf ,,driverinn“ í hópnum. Hann vakti fljótt áhuga minn og 2 dögum eftir að við hittumst fyrst vorum við byrjuð saman. 2 mánuðum seinna var hann fluttur inn til mín og foreldra minna. Hann hefur átt mjög erfitt, er skilnaðarbarn, og bæði mamma hans og pabbi eru ægilegir alkóhólistar. Mamma fór fljótlega að minnast á það að við værum frekar eins og systkini heldur en kærustupar, því að við hnakkrifumst á hverjum degi, og oftar en ekki endaði það með því að hann rauk út og ég sat grátandi inni í herbergi, með mömmu við hlið mér að reyna að hugga mig. Þegar ég kom heim úr skólanum byrjaði hann að yfirheyra mig um það hvort að ég hefði verið að reyna við einhverja stráka o.s.frv. Sannleikanum samkvæmt sagði ég honum að hætta þessu bulli og hann vissi alveg að ég væri bara hrifin af honum.

Þegar við fluttum í okkar eigin íbúð nokkrum árum seinna þá fyrst byrjuðu vandamálin. Hann var farinn að drekka rosalega mikið, og réttlætti það með því að segja að hann væri sjómaður, og væri bara annan hvern mánuð í landi og þessvegna ,,mætti“ hann þetta alveg. Eitt skipti vorum við að keyra eitthvert, og hann var að biðja mig um eitthvað sem ég vildi alls ekki gera og það situr svo fast í mér það sem hann sagði, en það var: ,,ef þú gerir þetta ekki, þá veistu vel að ég get alveg fundið mér einhverja miklu betri, skemmtilegri og fallegri kærustu en ÞIG!“ Auðvitað lét ég eftir honum. Ég reyndi 2 sinnum að hætta með honum, en í bæði skiptin lofaði hann mér því að verða betri maður og allt það en ég gleypti það, en næstu 3 mánuðir á eftir voru yndislegir, síðan var allt komið aftur í sama farið.

Einu sinni fór hann á sjó nokkrar vikur samfleytt. Þegar hann kom heim af þessum langa túr, beið ég spennt heima í íbúð og stökk í fangið á honum um leið og hann kom inn. Hann ýtti mér í burtu, kyssti mig á kinnina og sagðist vera farinn út á djammið með strákunum. Þið trúið ekki hvað mér sárnaði!! Svona gekk þetta í heilan mánuð á meðan hann var í landi.

Oftar en ekki lét ég eftir honum og svaf hjá honum, bara svo hann yrði viðræðuhæfur daginn eftir. Það kom einu sinni fyrir að hann hvarf í 3 daga eftir helgi, þá hafði hann farið með vinum sínum eitthvert og fannst hann ekki vera skyldugur til þess að láta einn né neinn vita. Þegar svo ég komst að því eftir 3 ára samband að hann hafði haldið framhjá mér nokkrum sinnum, og nánast alltaf í MÍNU rúmi, þá fékk ég nóg og ákvað það að annað hvort yrði ég að sætta mig við það að svona yrði hann alltaf og mér myndi alltaf líða illa, eða hætta með honum og vonast eftir betra lífi! Ég ákvað að hætta með honum og ég fékk svo sannarlega betra líf.

Ég á núna kærasta sem að ég gæti ekki verið ánægðari með og við erum yfir okkur ástfangin. En þá kemur að vandamálinu. Ég get ekki hætt að hugsa um minn fyrrverandi! Stundum get ég ekki ímyndað mér afhverju ég lét hann fara svona með mig, en hann hringir oft í mig og lofar mér því að hann verði betri maður og allt það og ég veit að hann segir þetta bara, en innst inni þá langar mig svo að skríða aftur til hans – góðu dagarnir voru nefninlega svo góðir!! Það er eins og það sé stórt gat í hjartanu á mér, og alveg sama hvað ég sé ánægð og elski lífið mikið, þá geti ég ekki fyllt uppí það. Mig langar svo til þess að hann viti hvað hann fór ógeðslega illa með mig, en mig langar líka svo til þess að fyrirgefa honum og fara aftur til hans. Fyrir viku síðan þá hringdi hann og sagðist ekki geta fyrirgefið sjálfum sér fyrir að hafa farið svona illa með mig og vildi byrja með mér aftur og bæta fyrir það, en núna er hann kominn með einhverja gellu, og þótt ég reyni að vera ánægð og hugsa að núna láti hann mig loksins í friði, þá vil ég ekki að hann verði góður við einhverjar aðrar stelpur en mig.

Mig langar að fá allt það góða frá honum sem hann er að gefa öðrum stelpum núna. Hann t.d. gaf einni stelpu rós núna um daginn og það fyrsta sem að ég hugsaði var: ,,aldrei nokkurn tímann gaf hann mér neitt, og maður sem var með 1 millj. á mánuði í laun, lét MIG, námsmanninn, borga leiguna, matinn og alltsaman!“ Hvað er að mér??? Af hverju þarf ég að fara í fýlu við núverandi kærasta minn útaf því að við rífumst aldrei?? Afhverju get ég ekki bara gleymt þessum strák sem ég var með og lifað lífinu ánægð??

Svar:
Þú segist yfir þig ánægð í núverandi sambandi og yfir þig ástfangin. Í ofanálag rífist þið aldrei. Ég óska þér innilega til hamingju með það. Það virðist þó lítt hræða þig að missa það allt saman ef hitt sambandið fæst.

Ég skil þig mætavel. Það sem hitt sambandið hafði upp á að bjóða voru miklar ástríður, gæti maður haldið við fyrstu sýn, en kannski voru það öllu frekar miklar sveiflur. Þegar fyrra samband var gott var aþð ofsalega gott og þegar það var slæmt var þa
ð ákaflega slæmt. Lýsingin á fyrrverandi er ekki kræsileg. Reyndar er nokkuð ljóst að maðurinn hefur fetað í fótspor foreldra sinna og er svínvirkur alkóhólisti með öllu sem því fylgir. Svona samband kallast ,,addictive relationship“ á enskunni eða fíknsamband. Þú færð kikkið þitt þarna. Það voru kannski slæmu tímarnir sem gerðu þessa góðu enn betri. Þú vandist þessum sveiflum og ánetjaðist kikkinu sem kom svo oft, kannski sér í lagi eftir niðursveiflu. Ef þú ákveður að taka fyrrverandi trúanlega er mjög líklegt að allt fari í sama horf fyrr en síðar.

Ef þetta á að hafa einhverja möguleika á að ganga hjá ykkur verður hann að minnsta kosti að taka sig á og hætta að drekka. Ég ráðlegg þér að einbeita þér að því sem þú hefur, sem að þinni sögn er eins og það getur best orðið. Líttu á þrána eftir fyrra lífi sem einskonar fíkn í óheilbrigt kikk. Veruleikinn var bitur þótt stundum næðirðu upphæðum. Það sama geta allir fíklar sagt um sína fíkn. En með því að einblína á kikkið og hunsa allt hitt er fólk bara að grafa sig í afneitun. En ef þú tekur slaginn með þessum fyrrverandi geturðu verið viss um að maðurinn sem þú ert svo yfir þig ástfanginn af núna og ert svo ánægð með verður ekkert allt of æstur í að taka þig til baka ef allt fer í sama horf með fyrrverandi.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Gangi þér vel.
Reynir Harðarson
sálfræðingur