Fimmti barnasjúkdómurinn á meðgöngu

Spurning:

Kæra Dagný

Það sem mig langar til að fá nánari upplýsingar um er sjúkdómur sem nefnist fimmti barnasjúkdómurinn. Ég er búin að lesa um hann á Doktor.is en það sem mig langar til að vita er hvort hægt sé að taka blóðsýni og úrskurða hvort ég hafi fengið þennan sjúkdóm sem barn eða ekki. Ég er komin á 15 viku meðgöngu og er á leið erlendis og var svo að fá þær fréttir að þessi sjúkdómur væri að ganga í skólanum hjá gestgjöfum okkar erlendis. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að gera í þessum málum og væri því fegin að fá ráðleggingar.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Nú er það svo að stór hluti Íslendinga hefur fengið fimmtu veikina í æsku og er því varinn fyrir honum það sem eftir er ævinnar. Þessi sjúkdómur er ekki alveg bráðsmitandi en smitist kona á meðgöngu eru 10-30% líkur á að fóstrið smitist. Veiran sem veldur fimmtu veikinni hefur þau áhrif á beinmerginn að hann hættir að framleiða rauð blóðkorn um tíma og þar sem fóstrið þarf að framleiða mikið af blóðkornum getur það orðið blóðlaust. Með blóðprufu er hægt að ganga úr skugga um hvort einstaklingur hafi smitast en þar sem slíkar blóðrannsóknir eru dýrar er ekki boðið upp á þær í mæðravernd nema grunur leiki á að kona hafi smitast á meðgöngu. Þú hefur hins vegar þann valkost að borga rannsóknina sjálf hjá þínum heimilislækni ef þig langar að vita hvort þú ert með gömul mótefni eftir smit í æsku. Ef þú ert mótefnalaus væri rétt fyrir þig að forðast að vera í snertingu við börn sem gætu verið smituð. Veiran smitast með úðasmiti og beinni snertingu og smit verður frá tveim dögum áður en barnið fær hita og þar til það er laust við útbrotin.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir