Finn fyrir kuldatilfinningu í móðurlífinu

Spurning:

Kæri netdoktor!

Ég er með fyrirspurn til kvensjúkdómalæknisins Arnars Haukssonar. Þannig er mál með vexti að ég er nýbúin að fara til kvensjúkdómalæknis vegna þess að ég fékk oft brúnleita útferð (sérstaklega eftir samfarir). Ég hef einnig fundið fyrir "kulda-tilfinningu" í móðurlífinu þ.e eins og mér sé kallt í móðurlífinu.

Nú (aðeins á síðustu dögum) finnst mér líka að útferðin mín sé aðeins þynnri – alla vegna finn ég aðeins meira fyrir henni.

Ég fór í skoðun þann 30.jan. Við skoðun kom ekkert í ljós – og allt virtist eðlilegt – held að hann hafi sagt að ég gæti samt verið með lítilsháttar bólgu – en ekkert sem ætti að vera neitt til ama. (Er búin að vera á pillunni í 6 ár) Hann sagði mér frá að það gæti komið brúnleit útferð þegar útferðin fer utan við legið og eitthvað – veit ekki hvort ég fer rétt með þetta. Fannst þetta frekar ruglinslegt.

Það virtist ekki vera nein útferð í leginu og enginn roði og slíkt. Hann spurði mig hvort ég fengi verki en ég sagði að það væri alla vegna ekkert sem angraði mig. núna undanfarið hef ég samt fengið einhverja verki – en veit ekki hvort það er eitthvað alvarlegt.

Hann tók krabbameinssýni og sagðist skildi senda mér bréf um niðurstöðurnar úr því. (mamma mín fékk frumubreytingar þegar hún var yngri og það þurfti að stytta leghálsinn – skeiðarskurður held ég að það sé kallað).

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þér er að ég er svolítið óróleg. Þó að ég hafi mikið álit á kvensjúkdómalækninum mínum og treysti honum 100 % þá vil ég samt fá annað álit um þetta.

Ég ætlaði að bíða þangað til að niðurstöður út úr krabbameinsprófinu kæmu – en ég er að hugsa – ef allt er eðlilegt – af hverju hef ég þá þessa óþæginlegu "kulda-tilfinningu". Núna undanfarna viku hefur hún aukist svolítið. Ef aldur skiptir máli, þá er ég 23 ára.

Kæri Arnar ég vona að þú getir gefið mér einhver frekari svör.

Kær kveðja

Svar:

Sæl,

Í fyrst lagi þarftu ekki að óttast um söguna frá henni móður þinni. Leghálskrabbamein erfist ekki. Það er erftitt að túlka svör annars læknis og ég vil það ekki. Maður gefur sjúklingi upplýsingar á niðurstöðum þess sem maður sér. Það eru 6 megin orsakir fyrir blæðingum eftir samfarir og það hefur læknirinn þinn ábyggilega athugað. síðan þarf að hyggja að lyfjatöku ef er einhver. Eina sem þú etv gætir gert að sinni aukalega væri að fara með þvag í ræktun á heilsugæslustöðina þína. Ef ekkert kemur út úr þessu, hef ég fyrir sið að skoða sjúkling aftur.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr med