Spurning:
Sæl.
Mig langar að athuga hvort að þið hafið einhverja skoðun á því að móðir fari frá ungabarni í nokkra klst. á dag.
Þannig er að ég á yndislega 6 vikna gamla dóttir. Hún er algjört óskabarn þar sem við vorum tvisvar sinnum búin að reyna við glasafrjóvgun. Hún fæddist rúmlega þremur vikum fyrir tímann en var samt 12 merkur og 49cm. Hún tók strax brjóst og var mjög fljót að taka öll við sér og að losa sig við smá fyrirburagulu.
Þannig er, að ég hef verið að sinna ýmsu þannig að ég hef verið frá henni á mánudögum 5 klst. bara 2 klst á þriðjögum en síðan í 9 klst á miðvikudögum 2 á fimmtudögum og er síðan alveg með henni fösdag, laugardag og sunnudag. Þegar ég er ekki heima er pabbi hennar með hana og gefur henni pela.
Mér hefur fundist núna síðustu vikuna eins og hún sé óværari á kvöldin (grætur meira og er lengur að sofna) þegar ég hef verið lengi í burtu. Það hefur verið þannig að pabbi hennar „ræður ekki við hana” á kvöldin, þá vill hún eiginlega bara vera alveg í fanginu á mér. Sem mér þykir svo sem ekki slæmt.
Hún vill alls ekki taka snuð en notar mig held ég pínulítið sem snuð á kvöldin.
Er ég að gera henni óleik með því að vera svona mikið í burtu frá henni? Getur verið að hún sé viðkvæm og þoli ekki þessar breytingar, að hún þurfi að geta stólað sig algjörlega á annað okkar en ekki svona mömmu og pabba skipti?
Svar:
Sæl.
Vitaskuld verður hver og einn að hafa þetta eins og aðstæður leyfa og flest börn virðast komast ágætlega til manns þótt móðirin fari til vinnu fljótlega eftir fæðingu. Í Bandaríkjunum og víðar fá konur t.d. eingöngu 2 vikna frí eftir fæðingu. Það er líka gott fyrir hana að þú ert með hana á brjósti því það færir hana nær þér og hjálpar henni að vinna upp aðskilnaðinn. Það eru þó til kenningar um að mikill aðskilnaður frá móður í frumbernsku geti valdið kvíðaröskun og jafnvel geðveilu. En svo eru aðrar kenningar sem hrekja þetta. Sjálfsagt eru gæði samverunnar og ástúðin sem barnið finnur það sem skiptir sköpum í lífi þess og þroska. Þannig að ef þú ert mikið með hana í fanginu og veitir henni mikla athygli þegar þú ert heima og pabbi hennar veitir henni sömu ástúð og athygli þegar þú ert ekki heima held ég að þið þurfið ekki að óttast um sálarheill stúlkunnar. Greinilega ert þú þó í einhverjum vafa um réttmæti aðskilnaðarins og ef þér líður illa með þetta þá finnur sú litla það og verður óróleg. Reyndu því að gera það sem þú ert sátt við og þá finnur stúlkan til öryggis og verður rólegri og þið foreldrarnir þar með.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir