Fjölgun hvítra blóðkorna og hækkun sökks

Daginn,

Ég sé ekki þessa samsetningu í fyrirspurn hjá ykkur svo ég vildi senda inn spurningu.

Ég er búin að vera í vanda með blóðið hjá mér, fyrst var blóðleysi og járnskortur sem fylgdi síðan B-12 vítamín skortur.
Það er komið í lag.
En ég fór í blóðprufu núna fyrir stuttu og þá fékk ég vitneskjuna að það væru of mörg hvít blóðkorn í líkamanum mínum og sökkið væri búið að hækka.

Hvaða merkingu hefur þessi samsetning?
Er eitthvað sem ég get gert til að hafa áhrif á því að koma blóðinu í jafnvægi?

Ég stunda hreyfingu daglega og er að koma mataræðinu í lag.

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina

Hækkun á hvítum blóðkornum og hækkun á sökki eru mælikvarðar sem gefa vísbendingu um bólgusvar í líkamanum. Hvernig bólga eða af hvaða toga þarf að skoða með öðrum hætti eins og að fá upplýsingar um annað heilsufar og slíkt. Bólgusvar myndast t.d. við veikindi, ýmsa sjúkdómar eða áverka. Yfirleitt gengur þetta niður þegar orsökin hverfur. Læknirinn metur þá hvort sé ástæða til þess að fylgjast frekar með þessu bólgusvari eða leita frekari skýringa á því.

Þú skalt halda áfram að hreyfa þig og laga til í mataræðinu og heyra svo í lækninum þínum og fá ráðgjöf með framhaldið

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur