Fjólublá húð?

Spurning:
Mig langar að vita hvers vegna er húðin á mér svona fjólublá? Stundum er hún eiginlega meira svört en fjólublá á höndunum og fótunum, sérstaklega ef ég reyni eitthvað á mig eða verð kalt. Mér finnst stundum eins og hún sé að springa utan af mér þegar hún verður svona. Oftast nær þetta þó bara létt fjólurauður litur en ég hef verið svona lengi og finnst þetta mjög leiðinlegt því ég get ekki verið í ermastuttum bolum án þess að fá athugasemdir um þennan undarlega húðlit og þaðan af síður með bera fótleggina í leikfimi.

Ég hef reynt að fara í ljós til að fela þetta en þetta sést alveg jafn vel því ég verð ekkert sérlega brún. Ég er líka búin að reyna alls konar krem sem eiga að gera húðina mjúka og fína en ekkert lagast. Þetta kemur líka í andlitið og þá verður húðin svo heit að meikið bráðnar af mér. Ég er orðin mjög leið á þessu, er eitthvað að mér sem hægt er að laga eða verð ég að sætta mig við að vera svona ógeðslega ljót það sem eftir er?

Svar:

Komdu sæl. Þakka þér fyrirspurn þína. Ég tel ekki eðlilegt að þú hafir þennan bláma í húð. Ég trúi því sem þú segir þegar þú lýsir litnum og tel ekki að hér sért þú að ræða um fölva eða roða

Til að geta metið af hverju bláminn stafar mundi ég vilja gera hjá þér almenna athugun og rannsóknir sem felast í eftirfarandi:

Ég vildi fara yfir þína sjúkra- og heilsufarssögu auk þess að spyrja út í ættarsögu þína. Ég vildi fá að sjá og heyra hver þín næringalega staða er. Athuga hver þinn lífstíll er m.t.t. næringar, hreyfingar og neyslu á t.d. áfengi og tóbaki.  Ég mundi vilja mæla hæð þína og þyngd, líkamshita, blóðþrýsting og hjartslátt auk súrefnismettunar í blóði. Ég mundi vilja láta gera ákveðnar almennar  rannsóknir eins og að taka blóðsýni sem sýndi mér blóðhag og starfsemi líkama þíns. Láta taka af þér röntgenmynd af lungum og gera ómskoðun á hjarta og taka hjartalínurit. 

Allt eru þetta almennar athuganir og rannsóknir sem gerðar eru við fyrstu skoðun hjá sjúklingum. Þær getur þú fengið gerðar hjá þínum heimilislækni og/eða hann pantar þær. Einnig vil ég benda þér á að athuga hvort þú getir fengið þær gerðar hjá Hjartavernd – allt á einum stað. Komi eitthvað fram óeðlilegt sem getur útskýrt þennan vanda þinn þá er þér vísað áfram til viðhæfandi sérfræðings til nánari skoðunar og mats.

Í flestum tilfellum er ekkert alvarlegt á ferðinni. En það er bara svo gott að fá niðurstöður og staðfestingu á hvort eitthvað óeðlilegt er að eða ekki.  Efi og óvissa er nagandi og bætir ekki ástandið.

Hér er það oftast að við sjálf þurfum að breyta atferli okkar og lífstíl til að fá bót á. Við gætum þurft að breyta mataræði – sleppa ruslfæði og óreglulegum matarvenjum. Velja frekar hollustu og neyta hennar reglulega. Auka daglega útiveru og hreyfingu okkar t.d. fá okkur göngutúr eða fara í sund/líkamsrækt. Huga að klæðnaði okkar í samræmi við veðurfar. Já, tískan er ekki okkur alltaf hliðholl eins og þröngir skór og pinnahælar, litlir bolir sem engu skýla og buxur á mjöðmum svo mittið er bert á að líta.  

Það er margt sem við getum sjálf breytt til að bæta okkar líkamlega ástand til hins betra.  Gangi þér vel.

Bestu kveðjur, Hrönn Guðmundsdóttir.