flensulík einkenni eftir áreynslu

Góðan dag.

Ég er 56 ára gömul og er að reyna að koma mér í þokkalegt form. Ég hef oft tekið góðar tarnir og verið dugleg í ræktinni, keypti mér hjól síðasta sumar og hjólaði svolítið. Auk þess hef ég farið í gönguferðir, ekki miklar fjallgöngur svo sem, en sem sagt, ég hef reynt að hreyfa mig þó í mismiklum mæli frá einum tíma til annars.
En til að gera langa sögu stutta þá ákvað ég um áramótin að reyna nú að koma upp einhverri reglu á hreyfinguna og búa til plan. Planið var að fara í ræktina þrisvar í viku og gönguferðir (innanbæjar eða léttar göngur á fjöll) þrisvar í viku. Það er nú skemmst frá því að segja að planið hefur ekki alveg gengið eftir. En hins vegar gerðist það að ég hef fundið fyrir einkennum sem minna á flensu og hef nú misst úr vinnu þrjá daga út af því. Ég er ekki með nein kvefeinkenni og finn ekki fyrir neinu öðru en algerum slappleika eins og blóðþrýstingurinn sé bara í lágmarki og eins og ég sé með hita. Ég á ekki mæli þannig að ég hef nú ekki getað mælt mig en þó er ég viss um að ég hef ekki verið með mikinn hita. Í fyrra skiptið (í síðustu viku) fann ég mikinn höfuðverk.
Það sem ég valdi mér að gera í ræktinni var að fara í Spinning-tíma. Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið of mikil áreynsla og gæti það valdið svona einkennum?

Með fyrir fram þökk fyrir svör,

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er alveg til að fólk sem byrja að taka heilsuna sína föstum tökum að það byrji á því að upplifa flensueinkenni, hver raunveruleg ástæða sé þar á baki er ekki gott að segja. En gott er að taka það með inní myndina að sl. vikur hefur gengið hér yfir landið mjög skæður kvef vírus sem lýsir sér til að mynda eins og einkennin þín segja til um. Hvað það er sem veldur þínum slappleika er ekki gott að segja, en ég ráðlegg þér að fara varlega af stað, halda vel að þér vökva og prófa hægt og rólega að fara í einstaka tíma í ræktinni. Ef einkenni halda áfram þá ráðlegg ég þér að panta tíma hjá heimililislækni til að fá úr því skorðið hvort blóðhaginn þinn vanti eitthvað, t.d. járn eða d-vítamín.

Gangi þér vel,

með kveðju,

Lára Kristín Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.