Fólínsýra – líkamsrækt og blæðingar?

Spurning:
Komið þið sæl.
Mig langar til að vita hvort hægt sé að taka of mikið inn af fólínsýru? Það er þannig að ég tek fólínsýru og vítamín og var svo að lesa á vítamínið og þar er einnig fólínsýra! Er hættulegt að taka svona mikið? Svo er það eitt, við hjónin erum búin að reyna að verða ólétt í 12 mán. og ekkert gengur, ég er nú farin að fara í líkamsrækt, er það slæmt þar sem við erum að reyna? Eða er þetta allt í góðu? Ég er í aðhaldstímum. Ég er ein af þeim konum sem er með ofsablæðingar (stend í baðkarinu góðan hluta af 1. deginum) hefur það eitthvað að segja hvað okkur gengur brösuglega að verða ólétt? Bíð spennt eftir svörum.
Með fyrir fram þökk – ein kvíðin.

Svar:
Ágæti fyrirspyrjandi.

Hér kemur síðbúið svar.
1) Það er mjög erfitt að taka of mikið af Fólati/fólínsýru, svo þú þarft ekki að hræðast það í þeim skömmtum sem þú ert að taka.
2) Líkamrækt þarf að vera veruleg til að hafa áhrif á getnaðarmöguleika.
3) Miklar blæðingar þurfa ekki að hafa þýðingu en geta verið vísbending ef ekkert annað finnst að sem skýrir tregleika til að þú verðir þunguð.

Ræddu það við lækni þinn.

Kveðja,
Arnar Hauksson dr med.