Fráhvarfseinkenni hormónalyfja?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég hef notað hormónalyfið Kliogest í all mörg ár, mér var skaffað það vegna þess að ég hafði beinbrotnað fjórum sinnum, og kom illa út í beinþéttnimælingu. Í vetur var skipt um lyf hjá mér (fékk Septium), ég hætti á Kliogest smátt og smátt, og nú er ég alveg hætt. Mér finnst ég hafi undanfarið verið óvanalega döpur og áhugalaus, hélt að ég væri að verða þunglynd. Svo las ég pistilinn hjá ykkur eftir hann Jóhann Ágúst og datt þá í hug hvort þetta gætu verið fráhvarfseinkenni vegna þess að ég er hætt á Kliogest, gæti það verið? Ef svo er hvað er þá til ráða, lagast það með tímanum?
Kærar þakkir.

Svar:
Af einhverjum ástæðum hefur ekki verið talað mikið um fráhvarfseinkenni vegna samsettra kvenhormónalyfja fyrr en nýlega eftir að greinar birtust þar sem leiddar voru líkur á að notkun þeirra væri ekki eins meinlaus og áður var talið. Hvort depurð, áhugaleysi og þunglyndi er meðal þeirra „alls kyns fráhvarfseinkenna“ sem talað er um í dag, veit ég ekki fyrir víst. Þessi samsettu hormónalyf draga úr þessum einkennum og fleiri óþægindum hjá konum við tíðahvörf og er langalgengasta ástæðan fyrir notkun þeirra.

Optinate Septium er lyf sem dregur úr beinþynningu vegna áhrifa á kalkefnaskipti og hefur því engin áhrif á hormónabúskapinn. Ég vil sem sagt ekkert fullyrða um hvort einkennin sem þú lýsir séu vegna þess að þú hættir á hormónalyfinu eða ekki. Ef þetta eru „fráhvarfseinkenni“ ættu þau að hverfa tiltölulega fljótt. Ef ekki er full ástæða til að ræða þetta við lækni. Ýmsar aðferðir eru til í dag til að draga úr þessum einkennum.Finnbogi Rútur Hálfdanarson lyfjafræðingur