Framhjáhald, hvað á ég að gera?

Spurning

Ég á í miklum vanda með sjálfa mig eftir að ég komst að því að maðurinn minn
stóð í framhjáhaldi í 3 mán.
Við höfum verið saman í 9 ár og ég á eitt barn fyrir, honum
langaði sjálfum í annað barn en ég var í rauninni ekki tilbúin í það
síðan varð ég ófrísk og að sjálfsögðu var hann verulega ánægður meðgangan
gekk svona upp og niður mikil ógleði ,grindargliðnum ,gillinæð o.f.l ég
reyndi samt að vera jákvæð og hress alla meðgönguna. Þegar að barnið fæddist
svo var hann að sjálfsögðu viðstaddur og þurfti hann að aðstoða ljósmóðurina
ansi mikið þar sem brjálað var að gera á fæðingardeildinni t.d var ég klippt
ein 18 spor og þar var hann að aðstoða hana með ljósið ekki alveg það
girnilegasta fyrir mann í sinni fyrstu fæðingu.Eftir þetta varð hann mjög
lokaður og algjörlega kynkaldur ég sagði honum oft að ég héldi að hann hefði
fengið einhverskonar sjokk við þetta og við gætum fengið hjálp við þessu en
hann þverneitaði að þetta væri málið.Ég fór sjálf að verða hálf niðurdregin
og barnið var mjög erfitt sígrátandi,hann minkaði alla hjálp á heimilinu og
fór að verða skrítin í skapinu,ég fór að borða eins og vitleysingur og
fitnaði um 10 kíló svo koma að því að allt komst upp hann var þá í sambandi
við aðra konu alla daga. Heimurinn hrundi og ég hreinlega dó,hann var
algjörlega niðurbrotin maður og vildi ekkert nema mig og sagðist ekki skilja
hvað hann var að hugsa ,hann sagðist engan áhuga hafa á þessari konu og hún
væri honum ekkert,ég hins vegar á erfitt með að trúa því og gerðist algjör
Sherlock Holmes og komst að öllu í sambandi við þau og mér fannst þetta
samband þeirra alltof mikið og náið til þess að trúa því að þetta hefði
verið kall eftir hjálp, við fórum til fjölskylduráðgjafa sem hjálpaði
okkur heilmikið sérstaklega honum,ráðgjafinn sagði honum að hann væri
greinilega með kvíða og væri alltof tilfinningalega lokaður öfugt við mig.Svo
erum við alltaf að styrkja sambandið en ég dett svo hrikalega niður á milli
að ég verð alveg týnd og er alltaf að grafa eftir meiru um þetta mál ,ég
fyllist vonleysi ,vantrausti og stundum hreinlega held ég að ég geti þetta
ekki.Mér finnst ég ekki grönn og flott þó að ég hafi misst 16 kíló eftir
þetta sjokk og er alls ekki feit en samt er ég aldrei örugg með útlitið og
finnst ég alltaf vera á varðbergi með allt sem ég segi eða geri ,svo hugsa
ég þetta verður aldrei eðlilegt aftur þar sem ég er ekki ég sjálf eftir
þetta,allt sem ég geri er einhvern veginn útpælt og ég slaka aldrei á í því
sambandi.Við tölum mikið saman um allt sem gerðist á meðgöngunni og í
fæðinguni sem virðist hafa verið sjokkið fyrir hann og svo segir hann að ég
hafi í ofanálag verið orðin feit.ég varð alveg niðurbrotin við að vera
kastað til hliðar eins og gömul gólftuska eftir 9 ára samband af því að hann
gat ekki tjáð sig og ég var of FEIT barnið var 8 mánaða þegar hann byrjaði
að halda framhjá og finnst mér þetta algjör aumingjaskapur.Þegar ég dett
niður í þessa slæmu daga sem koma nú kannski ekki eins oft og áður þá fer
allt vit út um gluggan og ég ræð ekki við hugsanir mínar sem eru úr öllum
áttum framhjáhaldsins.Hvað get ég gert?

 

Svar

Það er ljóst af því sem þú lýsir að þú hefur orðið fyrir verulegu áfalli og
sjálfstraust þitt beðið mikið hnekki þegar þú komst að því að maðurinn þinn
héldi framhjá þér. Það er reyndar spurning fyrir mér hvort ekki hafi skort á
sjálfstraustið fyrir. Alla vega finnst mér þú einum of upptekin af því að
skilja manninn þinn og finna skýringu á því hvers vegna hann fór út í
framhjáhald og finnur skýringar í því að hann hafi orðið fyrir áfalli við
það að vera viðstaddur fæðinguna og í því að þú hafir ekki verið aðlaðandi
eftir fæðingu. Vel má vera að hann hafi orðið fyrir áfalli og vel má vera að
þú hafir bætt á þig einhverjum kílóum eftir fæðingu, en hvorugt getur talist
samþykkjanleg ástæða fyrir því að hann fari að stunda framhjáhald. Eða hvað
finnst þér? Ef þetta hefur verið svona, er það þá ekki bara eitt af þessum
vandamálum daglegs lífs, sem hjón þurfa að vinna í og leysa úr?
Það er gott að þið hafið leitað til fjölskylduráðgjafa, en þú segir að hann
hafi frekar hjálpað manninum þínum en þér. Með skrifum þínum sýnir þú líka
að þú átt sjálf allnokkuð í land með að vinna þig út úr þessu áfalli.
Fjölskylduráðgjafa ber að hjálpa ykkur báðum, ekki síst ber honum að vinna
með það hvernig þið vinnið saman úr erfiðleikum og finnið lausnir á
vandamálum. Það er ekki rétt leið að hjálpa fyrst manninum þínum og síðan
þér, ef það er það sem ráðgjafinn er að gera. Þá er það einnig þitt að gera
kröfur á ráðgjafann. Þér ber að sjá til þess að þú fáir það út úr tímum með
h
onum, sem þér hentar. Þú getur ekki beðið eftir að röðin komi að þér.
Fjölskylduráðgjafinn á að vita að með því að hafa viðtöl við ykkur bæði í
einu eða sitt í hvoru lagi er að hafa heilmikil áhrif á samskipti ykkar og
samband milli tímanna. Þegar um hjónaviðtöl er að ræða þarf ráðgjafinn að
sinna miklu meira sambandinu milli hjónanna en einstaklingunum sjálfum. Það
á ekki að fara fram hjá neinum, sem á þig hlustar að þú hefur þörf fyrir
styrkingu og þú átt rétt á því að þeirri hlið sé sinnt. Það gerist mjög
auðveldlega með því að hjálpa ykkur að vinna saman sem par að því að styrkja
samband ykkar og úrvinnsluleiðir.
Þú hefur ekki gerst brotleg við samband ykkar og átt því alls ekki að vera
sú sem líður mest fyrir það eða sýnir manni þínum ótæpilegan skilning. Þú
átt rétt á því að gera kröfur, bæði á manninn þinn og ráðgjafann. Það ert þú
sem átt að vera reið, setja mörk og gera kröfur. Samband ykkar á ekki að
byggjast á því að þú skiljir af hverju hann gerði þetta heldur á gagnkvæmri
virðingu og trausti og það næst ekki nema þú réttir úr kútnum og gerir
kröfur og setjir mörk. Þetta gildir bæði um manninn þinn og ráðgjafann. Ég
ráðlegg þér að gera kröfur á ráðgjafann um að sinna sambandi ykkar og vinna
með það fyrst og fremst. Þið getið líka velt fyrir ykkur hvort þið ættuð að
skipta um ráðgjafa eða að styrkja ykkur sitt í hvoru lagi hjá sitt hvorum
meðferðaraðilanum. Síðasta kostinn tel ég reyndar sístan.

Kær kveðja og vonir um að þú styrkist,
Sigtryggur.