Frumlyf eða kópíur?

Spurning:
Kópíur. Ég var greindur með bakflæði fyrir nokkrum árum síðan og hef þurft að nota bakflæðislyf til að sporna við því. Ég var með lyfseðil sem dugði í þrjá mánuði en ég var í Læknalind og læknirinn minn skrifaði upp á Losec Mups. Nú er Læknalind ekki starfrækt lengur og þegar ég þurfti að fá nýjan lyfseðil þá leitaði ég til nýs læknis. Sá skrifaðu upp á lyf (sem ég hélt að væri það sama) og var það ódýrara en það sem ég hafði áður fengið. Eftir að hafa notað það í stuttan tíma fann ég fyrir öðruvísi virkni. Það virtist ekki blokka sýrurnar eins vel og hitt hafði gert. Hundfúll fékk ég þá skýringu að um væri að ræða svokallaða kópíu. Ég geri mér grein fyrir því að það á ekki að vera mikill munur á ,,lyfinu mínu” og samheitalyfinu en ég fann fyrir miklum mun Spurningar mínar varðandi þetta er: Hvernig get ég komið í veg fyrir að ég fái kópíu í stað lyfsins sem ég bað um? Eru sjúklingar sem fá uppáskrifuð lyf frá læknum neytendur, þ.e. taka þátt í því hvaða lyf verður fyrir valinu, eða höfum við ekkert með það að segja?

Svar:
Ef læknirinn skrifar ákveðið lyf á lyfseðilinn og merkir það með R með hring utan um, ber apótekinu að afgreiða það lyf og ekki eftirlíkingu, jafnvel þó sjúklingur vilji það. Ef aftur á móti læknirinn merkir lyfið á sama hátt með S eða merkir það ekki, ber apótekinu að benda sjúklingi á að til sé ódýrara eftirlíkingarlyf, ef um það er að ræða. Sjúklingurinn á svo að ákveða sjálfur hvort lyfið hann fær. Ef læknirinn skrifar nafn eftirlíkingalyfsins á lyfseðilinn er það venjulega afgreitt sjálfkrafa. Nú er það svo að það þekkist að framleiðendur eftirlíkngalyfja geri samninga við apótek um afslætti. Í þeim tilvikum getur það verið enn hagstæðara fyrir vikðkomandi apótek að afgreiða þeirra lyf. Ég mæli því með því að þú leggir á það áherslu við lækninn að hann skrifi nafn þess lyfs (Losec Mups) sem þú vilt fá á lyfseðilinn og merki það með R. Þú borgar hvort sem er sjálfur verðmuninn á lyfjunum, þannig að það kostar Tryggingastofnun ekki meira þó svo að dýrara lyfið sé afgreitt. Ef hann hefur ekki gert það skalt þú taka það fram í apótekinu að þú viljir frumlyfið en ekki eftirlíkingu, þegar þú leggur lyfseðilinn inn. Ef þeir eru ekki reiðubúnir til þess eða það kostar óheyrilega miklu meira, getur þú alltaf athugað í öðru apóteki.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur