Gæti þetta verið sveppasýking?

Spurning:
Ég er 16 ára strákur, og ég hef verið í vandræðum með augun í mér. Annað augað er alltaf rautt, ekki eldrautt, en æðarnar í því sjást of vel. Hitt augað er minna rautt. Það er eins og roðinn sé mestur í "köntunum" á augunum, til hliðar, þannig að hann sést bara ef ég lít til hliðar. Ég er búinn að fara til læknis út af þessu, og panta tíma hjá augnlækni, en augnlæknirinn minn er í fríi í tæpar 2 vikur í viðbót. Ég er nýbúinn að vera á pensillínkúr vegna bakteríusýkingar svo mér datt í hug hvort það gæti verið að þetta sé sveppasýking? ég er búinn að prófa að fá lyf við slímhimnubólgu (Chloromycetin) og það virðist aðeins skána við það en lagast samt ekki. Ég nota linsur daglega, en er búinn að prófa að sleppa að nota þær í 2 vikur, og það skánaði ekkert við það. Auk þess nota ég ekki linsur meðan ég er að nota Cloromycetinið.

Heldur þú að það væri skynsamlegt að hætta að nota Cloromycetin ef þetta skyldi vera sveppasýking? Á ég að fara að hafa miklar áhyggjur af þessu nokkuð?

Svar:
Mér dettur helst í hug að þú sért með hvarmabólgu. Hún veldur oft einkennum líkt og þú lýsir, oft mest í "krókunum". Þetta er ekki bakteríusýking í sjálfu sér og sveppasýking í augum er ákaflega sjaldgæf – þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því. Chloromycetinsmyrsl verkar lítið sem ekkert á hvarmabólgu og linsur gera hana sjaldnast verri. Ég held að þú ættir að panta tíma í skoðun hjá augnlækni til að greina þetta með vissu. Besta meðferðin við hvarmabólgu eru heitir bakstrar og hvarmaþvottur – þar kemur gamli þvottapokinn í góðar þarfir.

Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári.