Geðhvarfahópur?

Spurning:
Kæri doktor.is.
Þannig er að ég er þunglyndissjúklingur og hef verið á hinum og þessum lyfjum í gegnum tíðina. Loksins fyrir 2 árum var ég svo heppin/óheppin að vera eins og læknirinn kallar á grensunni. Þessi sami góði læknir kom mér inn hjá geðlækni sem ég hef nú verið hjá í 2 að verða 3 ár. Lyfin sem ég tek núna eru Rítalín, Lamectal og Efexor. Læknirinn minn talar um bipolar manic og depression og sýnir mér mynd af einhverju sem líkist sínus bylgjunni nema hvað að það er strik sem liggur mitt í gegnum og topparnir eru fleiri upp en niður.
Ég fann einhverjar greinar um geðhvörf og sá einhvers staðar að hópur hittist á fimmtudögum, þ.e. þeir sem hafa greinst með geðhvörf. Kallast þetta ekki geðhvörf sem ég er með? Læknirinn minn talar um að ég muni þurfa að taka lyfin það sem eftir er og það hefur reynst mér mjög erfitt. Þar sem ég sæki mjög mikið í maníu-ástandið eins hentugt og það er fyrir námsmann og íþróttir. Ef ég gæti sótt fundi þar sem ég gæti öðlast betri skilning á þessu fyrirbæri væri örugglega auðveldara að reyna að læra að lifa með þessu. Hvað veit ég?
Annars bara takk fyrir frábæra síðu 🙂 orkuboltinn

Svar:
Jú, það er rétt hjá þér að það er geðhvarfahópur sem hittist hjá Geðhjálp í Túngötu 7 á fimmtudagskvöldum kl. 21.00. Lýsingin þín hljómar vissulega eins og um geðhvörf séu að ræða en það er íslenska þýðingin á ,,bipolar disorder” (sem einkennist af sveiflum upp í örlyndi og niður í þunglyndi) en auðvitað þarftu að spyrja lækninn þinn nánar út í greininguna.

 

Þú ert hjartanlega velkomin í þennan hóp, hann er öllum opinn og í honum er einmitt fólk sem getur miðlað af reynslu sinni.

 

Ef þú vilt fá nánari upplýsingar um sjálfshjálparhópa Geðhjálpar er þér velkomið að hringja í undirritaða í síma 570-1700.

 

 

Kær kveðja,
Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp