Geðlyf á meðgöngu

Spurning:

Góðan daginn.

Mig vantar að vita hvort að það sé óhætt að taka inn Ritalin (3 á dag) og Zoloft (3 á dag) á meðgöngu. Vinsamlegast ef þú getur svarað mér sem fyrst barnsins vegna.

Svar:

Það er ekkert sem bendir til áhættu fyrir fóstur en reynsla af notkun á meðgöngu er takmörkuð. Í dýratilraunum hafði Ritalin hvorki áhrif á æxlun né frjósemi og hafði ekki eituráhrif á fósturvísi eða fóstur né vansköpunarvaldandi áhrif við skammta 2-5 sinnum hærri en lækningalegir skammtar handa mönnum. Ritalin á ekki að gefa þunguðum konum nema að væntanlegur ávinningur sé meiri en áhættan fyrir fóstrið.

Dýratilraunir benda ekki til að Zoloft hafi áhrif á frjósemi eða hafi fósturskemmandi áhrif, en mjög háir skammtar hafa leitt til aukinnar dánartíðni nýfæddra dýra. Engar tilraunir hafa verið gerðar á barnshafandi konum. Ber því að forðast notkun lyfsins á meðgöngu nema brýna nauðsyn beri til.

Textinn hér að ofan er tekinn úr Sérlyfjaskránni. Læknir verður að meta sjúkdómsástandið hjá þér og meta það hvort ávinningur af töku lyfjanna sé meiri en áhættan fyrir fóstrið.

Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur.