Fyrispurn:
62 ára – kona
Sonur minn 36 ára hefur átt lengi við geðræn vandamál að stríða. Ofsóknarkennd, félagsfælni, þunglyndi og kvíða. Er hann óvinnufær, en hefur þó haldið raunveruleikatengslum. Nýlega fór það að gerast að honum finnst sem hann sé í einhverju millibilsástandi áður en hann vaknar. Finnst honum sem einhver vera sé herberginu, eða einhvar sitji ofan á brjóstinu á sér. Einnig heyrir hann öskur og köll, en vaknar svo upp úr þessu.
Sömuleiis hefur hann í þessu ástandi farið fram úr rúminu og hellt mjólk á tertudisk og stappað hana með gaffli en áttar síg svo og skilur ekkert í því hvers vegna hann sé að þessu. Ennfremur hefur hann rankað við sér, við það að hann er að skipta á rúminu sínu, eða að hann er að mynda sig til við að róa bát uppi í rúmi. Mig langar til að vita hvað þetta ástand er kallað sem gerist í svona millibilsástandi milli svefns og vöku og hvort þetta sé merki um það að honum fari versnandi.
Svar:
Komdu sæl.
Það er ekkert ákveðið nafn til yfir það sem fólk upplifir þegar það er milli svefns og vöku. Eins og þú lýsir ástandi sonar þíns hljómar það vissulega þannig að hans geðræna ástand fari versnandi og það er mikilvægt að hann leiti sér sem fyrst hjálpar. Hann missir greinilega ranuveruleikatengslin í þessu ástandi og það er mikilvægt að skoða þetta nánar. Á hann t.d. við miklar svefntruflanir að stríða, er hann vel rauntengdur annars eða haldinn mikilli ofsóknarkennd og hræddur við fólk. Það er til að fólk geri hluti í svefni, sérstaklega börn, en mér finnst líklegara að þetta tengist þeim geðrænu vandamálum sem hafa þjáð hann fram að þessu. Það koma ekki fram nægar upplýsingar um hans ástand til að ég geti komið með tillögu um sjúkdómsgreiningu, en það er mikilvægt að greina hvort hann hafi svokallað geðrof. Geðrof er ástand þar sem fólk getur upplifað bæði ranghugmyndir og ofskynjanir sem hafa áhrif á líðan og geta líka haft áhrif á hegðun.
Sé hann ekki þegar í meðferð við sínum geðrænu vandamálum hvet ég ykkur eindregið til að leita hjálpar. Það er oftast fyrsta skrefið að leita heimilislæknis.
Með kveðju,
Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir