Geðsveiflur vegna töku á pillunni?

Spurning:
Halló!
Ég er að velta fyrir mér hvort að það getur verið að pillan mín, sem heitir Gynera og lyf sem ég er að taka (Zoloft) virki illa saman? Mér finnst eins og ég ráði ekkert við skapið í mér, en tók mér svo hlé frá pillunni í rúman mánuð um daginn og það var allt annað líf. Mér finnst þetta skrítið, var að spá hvort þið hefðuð heyrt um þetta. Hvaða getnaðarvörn get ég mögulega reynt að nota?

Svar:
Ég hef ekki getað fundið neitt um að Zoloft og getnaðarvarnalyf til inntöku eins og Gynera virki illa saman. Þín reynsla bendir þó óneitanlega til að það gæti verið raunin. Geðsveiflur er þekkt aukaverkun af getnaðarvarnalyfjum. Þarna gæti því verið um að ræða aukaverkun af Gynera óháð töku á Zoloft.Ég ráðlegg þér því eindregið að ræða við lækninn þinn um þetta vandamál og hvort ástæða sé til að breyta um getnaðarvörn.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur