Gersveppaóþol

Spurning:

Ég er alltaf að heyra um fleiri og fleiri sem eru með gersveppaóþol.

Hvað er þetta og af hverju eru svona margir með það?

Svar:

Fæðuóþol er þegar líkaminn bregst við fæði á óþægilegan hátt, án þess að ónæmiskerfið eigi þar hlut að máli. Fæðuóþol getur lýst sér sem magapína, höfuðverkur, hraður púls, ógleði, niðurgangur, hnerri, hósti eða á annan hátt. Vel þekktar ástæður fæðuóþols eru m.a. MSG (bragðaukandi efni), skortur á ensíminu laktasa sem þá veldur mjólkursykuróþoli og jafnvel geta ástæðurnar verið sálrænar. Oft er mjög erfitt að greina fæðuóþol og stundum ekki hægt. Það hefur verið á lofti kenning um það að gersveppir geti raskað jafnvægi þarmaflórunnar og valdið þannig óþægindum frá meltingarvegi, en þessi kenning hefur þó ekki verið nægjanlega mikið rannsökuð. Í greiningu er samt sem áður oft stuðst við þessa kenningu og er hún stundum notuð sem eins konar “ruslakista”, það er að segja ef engin önnur ástæða finnst fyrir óþægindunum. Fólki er þá ráðlagt að sneiða fram hjá geri (og jafnvel sykri, sem talið er að gersveppirnir nærist á). Árangurinn er misjafn, en hjá sumum hverfa einkennin. Þá er bara spurningin hvort það sé vegna gersins, einhvers annars sem dettur út úr fæðinu þegar gerinu er kippt út, eða jafnvel að sálrænir þættir eigi þarna hlut að máli.

Hvers vegna svona margir eru með þetta? Því er erfitt að svara þar sem ekki er hægt að greina óþolið – við vitum í raun ekki hvort fólkið þjáist af gersveppaóþoli, einhverju öðru eða alls engu!

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur