Get ég hætt á meðalinu?

Spurning:
Góðan daginn, ég er 74 ára karlmaður.
Ég tek inn lyfið Primidon era 250 mg vegna skjálfta í hendi.mér fynnst ég verða hálf slappur af notkun þess.Er búinn að taka þetta í ca.2 mánuði og fynn litla breytingu á skjálftanum.Get ég hætt fyrirvaralaust á meðalinu án nokkra aukaverkanna? Hvers vegna er þetta meðal ekki á skrá?
kv.

Svar:
Ekki er mælt með því að hætta notkun Primidons skyndilega þar sem hætta er ákveðnum fráhvarfseinkennum. Ég ráðlegg þér því eindregið að ræða við lækninn þinn ef þú telur þig ekki hafa gagn af lyfinu. Þið getið þá rætt saman um áframhaldandi notkun lyfsins, breytta skammtastærð, aðra lyfjagjöf eða hvort ástæða er til að hætta notkun lyfsins og hvernig það yrði þá gert.  Primidon er lyf sem hefur verið lengi á markaði. Það hefur einkum verið notað við flogaveiki. Mörg ný lyf hafa komið fram á undanförnum árum við flogaveiki, sem taka þeim eldri oftast fram í virkni og aukaverkunum. Með minnkandi notkun hafa því framleiðendur tekið lyfið af markaði einkum af litlum markaðssvæðum eins og Íslandi og aðrir framleiðendur ekki séð sér hag í því að markaðssetja það. Ástæðan fyrir því að lyfið er ekki á markaði hér er því ekki verkun eða aukaverkanir lyfsins, heldur lítil sala sem ekki ber uppi þann kostnað sem það hefur í för með sér að hafa lyfið á markaði. Þess má geta að Primidon er ekki á markaði í Noregi eða Svíþjóð heldur. Það er hins vegar á markaði í Danmörku.

Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur