Get ég hætt að reita hár mitt?

Spurning:
Til Reynis Harðarsonar
Ég er ein af þeim sem er með þann leiðinlega kæk að reita af mér hárið. Þetta er orðið það slæmt að það vaxa aðeins grá hár og er ég aðeins með stutt hár ofan á höfðinu og eru þau gisin. Ég hef gert þetta í 12 ár og er búin að reyna að hætta þessu en ekkert gengur. Ég hef miklar áhyggjur af þessu og langar að vita hvað er til ráða. Ég veit hvað þessi mania heitir en hvernig er hægt að lækna mann af þessu? Ef ég þarf að fara í tíma hjá sálfræðingi, hvað mun það kosta mig? Ég vil virkilega reyna að hætta þessu. Hvað ætli það séu margir með þessa geðveilu hér á landi?

Svar:
Þar sem þú ert búin að vera með trichotillomaníu í tólf ár og komin með stutt og gisið hár á höfði er ljóst að vandinn er djúpstæður. Þú ættir því endilega að leita þér hjálpar hjá geðlækni eða sálfræðingi. Tímar hjá þeim eru misdýrir og það er ekki hægt að segja fyrirfram hvað þú þarft marga tíma til að sigrast á þessu. Það veltur á svo mörgum þáttum eins og hversu alvarlegur vandinn er, hversu djúpstæður, hversu góð ráð þú færð en kannski fyrst og fremst eftir því hvað þú ert dugleg að fara eftir fyrirmælum. Hvað má það kosta þig að hætta að reita hár þitt?

Menn héldu lengi vel að þessi röskun væri mjög sjaldgæf en nýlega hefur komið fram í rannsókn að um 0,6% þjóðarinnar gætu átt við þetta að stríða einhvern tíma á lífsleiðinni (það eru um 1700 manns af núlifandi Íslendingum).

Kveðja,  Reynir Harðarson,  sálfræðingur