Get ég látið taka svitakirtla?

Spurning:
Ég er 28 ára, 162 cm 65 kg, vandamálið er að ég svitna fáránlega mikið undir höndunum og búin að gera það frá því ég komst á gelgjuna svokölluðu, ég get bara verið í svörtu, kannski hvítum bol, víðum þá. Mig dreymir um að geta keypt rauðan þröngan bol en það er bara ekki hægt því svitabletturinn sést að aftan og alveg fram á brjóst. Ég hélt alltaf að þetta myndi nú lagast þegar ég yrði eldri en nú gefst ég upp og er farin að spá í að láta fjarlægja svitakirtlana. Ég hef notað krem undir hendurnar en þetta er bara svo mikið að það virkar ekkert, ég borða ekki kryddaðan mat og skiptir engu máli hvað ég borða eða hreyfi mig mikið, þetta er bara alltaf eins. Ég hef heyrt fólk segja mér að það sé hægt að fjarlægja alla svitakirtlana og að hluta til, mér þætti vænt um að fá upplýsingar um þessa aðgerð, þ.e. hvernig hún er gerð, möguleg vandamál, aukaverkanir, hvað maður er lengi að jafna sig o.s.frv.

Kær kveðja

Svar:
Komdu sæl. Þakka þér fyrirspurnina.Ég ráðlegg þér að leita til sérfræðings í lýtalækningum eða almenns skurðlæknis. Þeir gera slíkar aðgerðir. Pantaðu tíma á stofu hjá einhverjum þeirra – í viðtal og skoðun. Læknirinn gefur þér allar upplýsingar varðandi aðgerðina, undirbúning fyrir hana og  hvað ber að hafa  í huga eftir aðgerð.

Hverri aðgerð/meðferð fylgir ákveðin áhætta. Við erum einstaklingsundin og líkamssvörunin er misjöfn. Sumir fá aukaverkanir s.s. ljót, upphleypt ör á meðan aðrir gróa vel þar sem lítið sést hvað eða hvort eitthvað var gert. Hafir þú fengið ör skaltu líta á það og skoða hvernig það hefur gróið.

Gefðu þér tíma til að ræða við lækninn þinn – áður en þú ákveður að gangast undir aðgerð. Hann gefur þér upp allar upplýsingar um aðgerðina sjálfa, undirbúning fyrir hana og eftirmeðferð. Einnig mögulegar aukaverkanir.

 

Oft gleymum við því sem við erum að hugsa um að spyrja lækninn þegar við komum til hans í skoðun. Gott er þá að skrá á blað hugsanir og spurningar sem maður vill fá svörun við og hafa þær með sér í viðtalið. Það ætti að tryggja að þú fáir allar nauðsynlegar upplýsingar sem mögulegar eru.

Gangi þér vel.Bestu kveðjur, Hrönn Guðmundsdóttir.