Geta þessi einkenni verið aukaverkun?

Spurning:
Ég er 39 ára kona og var á mannamóti eftir hádegið í dag, og var ekki búin að sitja lengi þegar mér fór að líða illa. Ég fór að finna fyrir loftleysi, fannst heitt og átti erfitt með að anda, en aðrir sem voru með mér fundu ekki fyrir óþægindum. Ljósin í húsnæðinu virtust of skær, mér sortnaði fyrir augum og sá litla depla. Hélt að það ætlaði að líða yfir mig. Á endanum fór ég út og þá fann ég að ég var með suð fyrir eyrunum og ég heyrði ekki almennilega það sem fólk sagði við mig. Mér varð óglatt og ég kastaði upp. Ég fór aftur inn, en eftir nokkra stund fór mér aftur að sortna fyrir augum og ég varð að fara aftur út. Ég fann fyrir ógleði og máttleysi seinna um daginn. Ég er ekki ófrísk og er ekki með hita. Ég hef aldrei fundið fyrir svipuðu aðsvifi, sérstaklega ekki þessu háa suði í eyrunum og heyrnarskorti. Getur þetta verið aukaverkun lyfja? Ég tók eina parkódín í morgun, skv. lyfseðli, og tek eina Seról daglega. Hef tekið Seról í rúma þrjá mánuði og parkódín (ekki parkódín forte heldur venjulegt) af og til í tvo mánuði. Ég hef líka fundið fyrir kláða í andliti undanfarið, getur það verið aukaverkun eða eitthvað annað?

Svar:
Ekki treysti ég mér til að fullyrða hvort lýsingin á vanlíðan þinni í margmenni bendir til að um aukaverkun af þessum lyfjum sé að ræða. Það er alls ekki útilokað og hvet ég þig til að ræða það við lækninn þinn sem fyrst til að fá úr því skorið.  Það sama á við um kláðann í andlitinu.

Finnbogi Rútur Jálfdanarson, lyfjafræðingur