Geta geðdeyfðarlyf haft áhrif á þungunarpróf?

Spurning:
Góðan daginn Dagný, ég er að vona að þú getir svarað mér. Þannig er mál með vexti, að ég og maðurinn minn erum að reyna að eignast barn. Ég þurfti að fara á geðdeyfðarlyf fyrir nokkrum vikum. Tíðarhringurinn minn hefur verið mjög reglulegur, 28 til 30 dagar og ég er yfirleitt farin að finna verki (fæ mjög slæma túrverki) nokkrum dögum fyrir blæðingar. Nú er ég komin 5 daga framyfir, er búin að vera með eymsli í brjóstunum (hef aldrei fengið svoleiðis). Líkamshiti minn er venjulega 36.8 en upp á síðkastið hefur hann verið hærri, frá 37.2 upp í 37.6 og núna í morgun var hann 37.3 (mældi mig áður en ég fór framúr rúminu). Ég veit ég fæ egglos, því ég finn mjög greinilega fyrir því (fæ verki). Ég er búin að gera 4 þungunarprufur og allar neikvæðar (flestar gerðar að morgni til). Ég var að lesa í „Heimilislækninum“ að geðdeyfðarlyf geta gefið falska niðurstöðu á þungunarprófum. Er það rétt? Og ef svo er, ef ég hætti á lyfjunum núna, hvenær get ég þá gert prufu og fengið nokkuð rétta prufu? Með fyrifram þökk um góð svör

Svar:
Það er rétt að ýmis lyf geta dregið úr öryggi þungunarprófsins. Þau geta einnig haft áhrif á tíðahringinn. Í þínum spurum myndi ég þó ekki hætta á lyfjunum heldur ræða þetta við heimilislækninn eða þann sem setti þig á þessi lyf. Fljótlega ætti læknir einnig að geta staðfest þungun með innri skoðun og blóðprufu.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir